Skólanámsskrá

Skólanámskrá Grænatúns

 

Leikskólinn Grænatún tók til starfa 1984. Hann er 3ja deilda leikskóli og þar dvelja börn á aldrinum 2–5 ára. Skólinn er við Fossvogsdal sem býður upp á fjölbreytileika í útiveru, náttúruskoðun og vettvangsferðum. Nafnið Grænatún er tilkomið vegna bóndabýlis sem stóð hér og nefndist Grænahlíð.

SKÓLANÁMSKRÁ
Leikskólastarf og leikskólauppeldi byggir á sérstökum uppeldisaðferðum og sérstakri grundvallar hugmyndafræði. Þeir sem vinna að leikskólauppeldi sækja hugmyndir til kenninga og rita ýmissa heimspekinga og uppeldisfrömuða.

Í leikskólauppeldi er leikurinn leiðandi hugtak. Fræðimenn eru sammála um að leikurinn sé helsta náms- og þroskaleið barna og rannsóknir sýna að lítil börn læra og þroskast best í leik. Leikurinn er hornsteinn leikskólastarfsins og er jafnframt helsta kennsluaðferð leikskólakennarans. Leikskólauppeldi er annars konar uppeldi en það sem foreldrar veita og er mikilvæg viðbót við það. Foreldrar eru óumdeilanlega aðaluppalendur barna sinna og bera meginábyrgð á uppeldi þeirra.

Uppeldi og menntun leikskólabarnanna er samvinnuverkefni allra kennaranna í leikskólanum þar sem þeir leggjast á eitt um að skapa börnunum gott, hlýlegt og fræðandi uppeldisumhverfi. Í leikskólastarfi fléttast saman á ýmsan hátt hugtökin leikur – vinna – nám. Börn í leikskóla læra fyrst og fremst í leik og daglegu starfi við eðlilegar og áþreifanlegar aðstæður. Líkamleg og andleg umönnun er forsenda þess að börn öðlist öryggiskennd og geti dafnað og lært af umhverfi sínu. Börnin þurfa að njóta sín sem einstaklingar, en jafnframt að læra að vinna saman, eignast vini og öðlast heilbrigða samkennd. Skipulag og búnaður leikskóla á að stuðla að því að vekja forvitni barnanna, efla sjálfstæði þeirra og frumkvæði, virkni, áhuga og gleði.

Leikskólanám
Leikskólanám á að efla alhliða þroska barna, þ.e.a.s. efla mikilvægustu þroskaþætti sem samtvinnast hjá barninu. Þessir meginþættir og samspil þeirra varða líkamsvöxt barna og hreyfifærni, tilfinningalíf, vitsmuni, félagsvitund og félagshæfni, fegurðarskyn og sköpunarhæfni, siðgæði og lífsviðhorf.

Í leikskólastarfi er barnið í brennidepli og starfshættir eiga að taka mið af þroska og þörfum hvers barns. Leikskólanám er samþætt nám þar sem námssvið og námsþættir fléttast inn í daglegt líf og leik barnsins.

• Nám í leik
Leikurinn í allri sinni fjölbreytni er kjarninn í uppeldisstarfi allra leikskóla. Leikskólakennarar þekkja leik barna, þeir virða leikinn, hlúa að honum, gefa honum rými og skipuleggja leikumhverfi barnanna. Fullorðnir og börn eru hluti af því umhverfi. Leikskólafræðingar leggja áherslu á mikilvægi leiksins sem náms- og þroskaleiðar- hinn frjálsi sjálfsprottni leikur er æðstur allra leikja. Margs konar upplifanir barnsins, svo og dagleg störf fullorðna fólksins, glæða leik barnanna lífi og innihaldi.

• Nám í daglegu lífi í leikskóla
Leikskólanám er samþætt nám þar sem barnið er að læra allan tímann við mismunandi aðstæður. Leikskólakennarar nota öll tækifæri sem gefast til að örva nám barnanna, t.d. í matartímum, fataherbergi og á snyrtingu. Umönnun og daglegar venjur eru stór hluti af leikskólastarfinu. Umönnun er fólgin í því að annast börnin líkamlega og andlega af hlýju, áhuga og ábyrgðarkennd. Með slíkri umönnun skapast tilfinningatengsl og trúnaðartraust.

• Nám í samskiptum
Hæfni til samskipta er grundvöllur þess að lifa, starfa og leika sér með öðrum í sátt og samlyndi. Leikskólakennarar stuðla að því að öll börn njóti sín í samskiptum og læri að taka tillit til annarra. Sjálfsmynd barna mótast hvað mest í samskiptum við annað fólk, bæði fullorðna og börn. Samvinna, samkennd, tillitssemi og ábyrgðartilfinning eru mikilvægir þættir í félagsþroska barna. Leikskólakennarar eru fyrirmyndir barnanna í orði og athöfnum.

• Nám í skapandi starfi og hugsun
Að skynja, skilja og skapa er hæfni sem börn verða að þróa með sér. Allt skipulag og búnaður í leikskólanum á að stuðla að því að vekja forvitni barnanna, frumkvæði, virkni, áhuga, gleði og efla sjálfstæði þeirra. Leikskólakennarar hvetja börnin til að spyrja spurninga og velta fyrir sér lífinu og tilverunni. Þeir skapa einnig aðstæður til tjáningar og sköpunar í leik, máli, myndlist, tónlist, leiklist, hreyfingu og dansi. Þannig gefst börnunum tækifæri til að skynja umhverfi sitt, vinna með fjölbreyttan efnivið og öðlast margháttaða reynslu.

Lög um leikskóla
Leikskólinn er fyrsti skóli barnsins; fyrsta skólastigið í menntakerfinu. Í leikskóla fer fram uppeldi og menntun barna á leikskólaaldri. Orðið menntun er notað í víðri merkingu, þ.e. uppeldi, umönnun, nám og kennsla.

Leikskólastarf á Íslandi byggir á lögum um leikskóla og reglugerð með þeim, og leikskóla sem menntamálaráðuneytið gefur út.

Samkvæmt meginmarkmiðum laga á leikskólinn

 • að veita börnum umönnun, búa þeim hollt uppeldisumhverfi og örugg leikskilyrði
 • að gefa börnum kost á að taka þátt í leik og starfi og njóta fjölbreyttra uppeldiskosta barnahópsins undir leiðsögn leikskólakennara
 • að kappkosta í samvinnu við heimilin að efla alhliða þroska barna í samræmi við eðli og þarfir hvers og eins og leitast við að hlúa að þeim andlega og líkamlega svo að þau fái notið bernsku sinnar
 • að stuðla að umburðarlyndi og víðsýni barna og jafna uppeldisaðstöðu þeirra í hvívetna
 • að efla kristilegt siðgæði barna og leggja grundvöll að því að börnverði sjálfstæðir,hugsandi, virkir og ábyrgir þátttakendur lýðræðisþjóðfélagi sem er í örri og sífelldri þróun
 • að rækta tjáningar- og sköpunarmátt barna í þeim tilgangi að styrkja sjálfsmynd þeirra, öryggi og getu til að leysa mál sín á friðsamlegan hátt.

(Úr lögum um leikskóla nr.78/1994)

Í lögum um leikskóla kemur einnig fram

 • að leikskólinn er val foreldra fyrir börn sín
 • að sveitarfélög skulu reka leikskóla óski foreldrar þess og bjóða börnum
 • a.m.k. fjögurra stunda dvöl
 • að leikskóli er fyrir öll börn á leikskólaaldri, þau sem þess þurfa njóta sérkennslu og aðstoðar til að geta notið leikskóladvalar sinnar
 • að leikskólar skulu þannig byggðir og reknir að þeir geti sinnt fötluðum börnum
 • að í leikskólum skulu starfa sérfræðingar í leikskólauppeldi, þ.e. leikskólakennarar.

Reglugerð um starfsemi leikskóla
Reglugerð um starfsemi leikskóla tekur til ýmissa ákvæða er varða:

 • húsnæði, búnað og útileiksvæði
 • starfslið og barnafjölda
 • samstarf leikskóla og foreldra
 • ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu – sérkennslu
 • gæðaeftirlit og gæðamat.

(Úr reglugerð um starfsemi leikskóla nr. 225/1995)

Aðalnámskrá leikskóla
Menntamálaráðuneytið gefur út aðalnámskrá leikskóla. Hún er fagleg stefnumörkun og lýsir sameiginlegum markmiðum og kröfum sem eiga við um allt leikskólastarf. Hún inniheldur hugmyndafræði leikskóla, markmið og leiðir. Aðalnámskrá er ákveðinn rammi um leikskólastarfið og undirstaða frekari skólanámskrárgerðar.

Í aðalnámskrá leikskóla er lögð áhersla á að efla alhliða þroska barnsins, heilbrigða lífshætti og lífsviðhorf, lífsleikni og sjálfstraust þess. Í leikskóla skal barnið ávallt vera í brennidepli og gert er ráð fyrir að barnið sé hæfileikaríkur og getumikill einstaklingur sem kann, getur og vill.

Lög um leikskóla, reglugerð um starfsemi leikskóla og aðalnámskrá leikskóla er að finna á netinu: www/mrn.stjr.is

NÁMSKRÁ LEIKSKÓLANS

Námskrá leikskólans mótast af þeim áherslum sem lagðar eru í Aðalnámskrá leikskóla, sérstökum áherslum/stefnu leikskólans og af þeim aðstæðum sem hann býr við. Hér er átt við ytri aðstæður og umhverfi leikskólans og þann faglega og persónulega bakgrunn sem mótar viðhorf leikskólakennaranna og starf.

Markmið námskrárinnar er

 • að skipuleggja uppeldi og nám barnanna
 • að stuðla að skilvirkara starfi
 • að gera leikskólastarfið sýnilegra.

Leikskólaperlan
Leikskólaperlan er líkan að margþættu námi barnsins í leikskólanum. Í leikskólaperlunni er barnið í brennidepli því allt leikskólastarfið snýst um barnið, sá flötur er gulur þ.e. litur sólarinnar. Þeir þættir sem næst barninu eru og unnið er með í daglegu lífi þess í leikskólanum eru:

Að klæða sig í og úr, borðhald, svefn og hvíld, hreinlæti og frágangur og snyrtimennska. Auk þess er unnið með ákveðin námssvið sem eru:

Málrækt, hreyfing, tónlist, myndsköpun, náttúra og umhverfi, menning og samfélag, þau eru höfð rauð á lit þ.e. glóðin sem í starfinu býr.

Leikurinn umlykur barnið í öllu starfi þess og námi. Grunnlitur perlunnar er ljósblár, þ.e. litur vatnsins. Í því rými flýtur allt það sem tengir hina fjölbreyttu þætti leikskólastarfsins saman. Leikurinn gárar vatnið og kemur öllu á hreyfingu.

Leikurinn
Leikurinn er

 • hornsteinn leikskólastarfsins
 • námsleið barnsins
 • kennsluaðferð leikskólakennarans

Leikurinn er hornsteinn leikskólastarfsins, hann er kennsluaðferð leikskólakennarans og námsleið barnsins. Í bernsku er það að leika sér það sama og að læra og afla sér þekkingar. Hinn frjálsi og sjálfsprottni leikur barnsins er talinn “leikur leikjanna”. Í frjálsum leik er barnið að skapa leikinn úr eigin hugarheimi, það tekur ákvarðanir á eigin forsendum og lærir að leita lausna. Í leik er barnið einbeitt og það er upptekið af augnablikinu. Fjölþætt upplifun elur af sér þekkingu, nýjar tilfinningar, nýjar athafnir og leikni.

Sköpunarþörf, virkni og hugmyndaflug barna birtist í leikjum þeirra. Í leikjum fá börnin hreyfiþörf sinni fullnægt og þau þjálfa hreyfingar sínar og líkamsstjórn. Í þykjustu- og hlutverkaleikjum og öðrum samleikjum lærist börnum nauðsyn þess að vinna saman og taka tillit hvert til annars á jafnréttisgrundvelli. Í leik öðlast börnin samkennd og vináttu. Í skipulögðum leikjum og regluleikjum læra þau einfaldar samskiptareglur og að virða rétt annarra, í slíkum leikjum vaknar og þróast lýðræðisvitund þeirra. Lögð er áhersla á vináttu, samleik og jákvæð samskipti stúlkna og drengja.

Í leik öðlast barnið

 • þroska, færni, þekkingu og reynslu
 • gleði, virkni, vináttu og upplifun

Í leik lærir barnið

 • samvinnu, samskipti, jafnrétti, sjálfstæði og lýðræði

Í leikskóla nýtur barnið

 • umönnunar, uppeldis og náms

Stefna leikskólans og langtímamarkmið
Leikskólinn Grænatún tekur mið af og vinnur eftir markmiðum þeim sem lög um leikskóla kveða á um. Helstu áherslur í starfi eru virkt nám barnsins, að barnið læri með því að framkvæma og gera tilraunir sjálft. Í grundvallaratriðum byggjum við starfið okkar á hugmyndafræði uppeldisfrömuðarins John Dewey (1859–1952) sem lagði megináherslu á að virkja athafnaþörf barnsins og vekja áhuga þess. “Learning by doing” að læra með því að framkvæma voru einkunnarorð hans hugmyndafræði. Þar á barnið sjálft að vera í brennidepli og skólinn á að miðast við þarfir þess og áhuga.

Fjögur áhugasvið barna samkvæmt kenningum Dewys eru:

 • Áhuginn á félagsskap og samveru við jafningja sem byggist á félagslegri eðlishvöt
 • Áhuginn á að rannsaka, leita og finna
 • Áhuginn á að skapa, búa til og viðhalda
 • Áhuginn á listrænni tjáningu; teikna mála, syngja og dansa

Leikurinn er þungamiðjan og þar tileinka börnin sér þekkingu en einnig er rík áhersla lögð á hinar daglegu þarfir. Þá er unnið markvisst með hreyfingu ,tónlist og myndlist. Samskipti í leikskólanum skipta miklu máli. Börnin eru í samskiptum við mörg börn allan daginn, í litlum eða stórum hópum. Börnin eru hvött til að sýna öðrum börnum umburðarlyndi og hjálpsemi. Samvinna, samkennd, tillitsemi og ábyrgðartilfinning eru mikilvægur þáttur í félagsþroska barna. Hæfni til samskipta er grundvöllur þess að lifa, starfa og leika sér með öðrum í sátt og samlyndi. Leikskólakennarar stuðla að því að öll börn njóti sín í samskiptum og læri að taka tillit til annarra. Stuðla að umburðarlyndi og leggja grundvöll að því að börnin verði sjálfstæðir ,hugsandi, virkir og ábyrgir þátttakendur í lýðræðisþjóðfélagi sem er í örri þróun. Rækta tjáningar og sköpunarmátt barna í þeim tilgangi að styrkja sjálfsmynd þeirra, öryggi og getu til að leysa mál sín á friðsamlegan hátt.

Einkunnarorð
Einkunnarorð leikskólans Grænatúns eru Leikur og gleði!

 • Örugg börn eru glöð börn
 • Glöð börn eru leikandi börn
 • Leikandi börn eru skapandi börn
 • Skapandi börn ná eins langt og þau vilja

Starfsmannastefna
Að starfsfólk sé ábyrgt í starfi, sýni hvort öðru virðingu og að starfsgleðin fái að njóta sín. Hæfni og þekking hvers og eins starfsmanns sé nýtt sem best og áætlanir séu gerðar út frá þeim forsendum. Uppeldi og menntun leikskólabarnanna er samvinnuverkefni allra starfsmanna í leikskólanum, þar sem leitast er við að skapa börnunum gott, hlýlegt og fræðandi uppeldisumhverfi. Að börnin öðlist öryggiskennd og læri af umhverfi sínu.
“Mannauð skal í menntun rækta”

Hér í Grænatúni höfum við lagt mikið uppúr samvinnu á milli deilda og unnið markvisst með það síðustu ár. Markmiðið með því er að börnin fái að kynnast öllum skólanum, það gerir þau öruggari þegar þau flytja á milli deilda og þau ná að kynnast öllu starfsfólkinu . Við höfum opið á milli deilda a.m.k. einu sinni í mánuði, við söfnumst saman í sal og höfum þar sameiginlega söngstundir, börnin fara með matarvagnana í eldhúsið og síðast en ekki síst hjálpast allir að á útileikskvæðinu.

DAGLEGT LÍF Í LEIKSKÓLA
Venjubundnar athafnir daglega lífsins í leikskólanum mótast af andlegum og líkamlegum þörfum barnanna og heilsu. Markmiðið er að börnin verði sjálfstæð og sjálfbjarga. Líkamleg umönnun og heilsuvernd stuðlar að almennri vellíðan barnsins. Návist leikskólakennarans við barnið í leik og starfi gefur dvöl þess í leikskólanum dýpra gildi.

Dagskipulag
Leikskólinn fylgir ákveðnu dagskipulagi sem þó er sveigjanlegt, það er sniðið að þörfum barnanna, þroska þeirra og aldri.

07:30 Leikskólinn opnar, frjáls leikur.
08:00-08:45 Morgunverður,
08:45-12:00 Leikur,hópastarf,myndsköpun,samverustund, útivera.
12:30-13:00 Hvíld, róleg stund /svefn.
13:00-15:00 Frjáls leikur, hópavinna, val, útivera.
15:00-15:30 Samverustund, síðdegishressing, sögustund.
16:00-17:15 Frjáls leikur, úti/inni eftir veðri og vindum.
17:15 Lokun.

Að koma og fara
Leikskólinn opnar kl. 07:30 og lokar kl.17:15. Tekið er á móti börnunum og þau sótt á þeirra deildum. Mikilvægt er að foreldrar láti starfsmenn vita þegar þeir koma með barnið sitt eða sækja það. Skipulagt starf hefst kl. 09:30. Gott er að barnið komi á réttum tíma í leikskólann svo það missi ekki af mikilvægum þáttum í leikskólastarfinu. Foreldrum ber að virða þann dvalartíma sem samið hefur verið um.

Markmið: Taka vel á móti hverju barni og foreldri. Að barnið finni sig velkomið í leikskólann. Barnið þarf að upplifa öryggi og það viðmót sem það mætir getur haft úrslitaþýðingu varðandi góð samskipti og tengsl.

Leiðir: Tekið er hlýlega á móti hverju barni með nafni og það hvatt á sama hátt. Barnið aðstoðað við að finna sér verkefni.

Að klæða sig í og úr
Í fataherberginu fer fram mikið uppeldis- og fræðslustarf. Börnin klæða sig að mestu sjálf í og úr, en fá þá hjálp sem þau þarfnast. Þetta eykur sjálfstæði þeirra og styrkir sjálfsmynd. Börnunum er gefinn góður tími, því ekki skiptir máli hvort barn kemst nokkrum mínútum fyrr eða seinna út. Vel er fylgst með að klæðnaður barnanna sé í samræmi við veður og einnig er þess gætt að hann hindri ekki hreyfingar þeirra í leik. Nauðsynlegt er að börn hafi meðferðis þann klæðnað sem samrýmist okkar íslensku veðráttu.

Markmið: Að barnið öðlist færni til að klæða sig í og úr. Að efla sjálfstæði barnsins og gera þau fær í að meta sjálf klæðnað sinn eftir veðri. Að barnið læri snyrtimennsku og góða umgengni.

Leiðir: Hvert barn á hólf merkt með nafni þess á. Barnið er hvatt til þess að klæða sig sjálft en fær þá aðstoð sem það þarfnast. Gefinn er góður tími til athafna og stuðlað að samhjálp. Barnið gengur frá fatnaði sínum.

Elstu börnin skiptast á að vera “veðurfræðingar” þar sem viðkomandi hugar að klæðnaði með tilliti til veðurfars. Einnig skiptast þau á að bera ábyrgð á að fataklefinn sé snyrtilegur.

Borðhald
Lögð er áhersla á að börnin fái hollan og fjölbreyttan mat í leikskólanum. Til viðmiðunar er gefinn út sérstakur matseðill fyrir leikskóla Kópavogs. Matartíminn á að vera notalegur tími þar sem öllum líður vel. Matartímar og borðhald hafa mikið uppeldislegt gildi, þar gefast gjarnan tækifæri til skemmtilegra og fræðandi umræðna.

Leikskólakennarar matast með börnunum inni á deildum þar sem börnunum er skipt í þrjá til fjóra hópa og áhersla er lögð á að börnin læri almenna borðsiði. Öll börn taka þátt í þeim máltíðum sem eru á dvalartíma þeirra.

Markmið: Matartíminn á að vera róleg stund þar sem öllum líður vel og skemmtilegar og fræðandi samræður um alla heima og geima eiga sér stað. Börnin læri almenna borðsiði öðlist sjálfstæði og læri að vera sjálfbjarga.

Leiðir: Börnin leggja á borð og sækja matinn í eldhúsið. Þau skammta sér sjálf á diskana hella í glas og smyrja brauð, nota hníf og gaffal, yngstu börnin að því marki sem geta þeirra og þroski leyfir. Þau eru hvött til að smakka allan mat og ganga frá sínum diski og glasi sjálf. Á elstu deildinni skiptast börnin á að aðstoða við matarborðið sækja mat í eldhúsið ef það vantar meira og ganga frá diskum og glösum, þurrka borð og sópa gólf.

Svefn og hvíld
Hvíld og nægur reglubundinn svefn er öllum börnum nauðsynlegur til að geta viðhaldið andlegri og líkamlegri heilsu og vellíðan og tekist á við lífið og leikinn.

Eftir hádegisverð er hvíld. Yngstu börnin sofa en þau eldri eiga kyrrláta stund, hlusta á sögu og/eða rólega tónlist. Lögð er áhersla á að skapa rólegt og þægilegt andrúmsloft í hvíldinni. Tekið er tillit til hvers og eins og þeirra þarfa Samráð er haft við foreldra um hversu lengi svefninn varir. Lögð er áhersla á að tíminn sem börnin eru að vakna sé rólegur og notalegur og þau fái þann tíma sem þau þurfa til að jafna sig eftir svefninn.

Markmið: Að auka vellíðan barnanna . Og að börnin njóti dagsins til fulls.

Leiðir: Börnunum er skipt niður í hópa og eru starfsmenn með í hópunum.

Yngri börnin leggjast hvert á sína dýnu og fá kodda og teppi. Hlustað er á rólega tónlist og starfsmenn fara á milli barnanna og gefa þeim strokur og klapp. Eldri börnin hlusta á sögu af bók eða geisladisk.

Hreinlæti
Hreinlæti er mikilvægur þáttur í daglegu lífi barnanna. Lögð er áhersla á að börnin þvoi sér eftir að þau hafa notað salerni. Yngstu börnin í leikskólanum eru að læra að halda sér hreinum og þurrum. Mikilvægt er að gæta þess að sá ferill gangi vel og jákvætt fyrir sig. Samráð er haft við foreldra hvenær barnið er tilbúið til að halda sér hreinu og þurru. Reynt er að gæta hreinlætis í hvívetna, ekki síst með tilliti til smithættu.

Markmið: Að börnin þroski með sér heilbrigt viðhorf til líkama síns og að þau læri að almennt hreinlæti er mjög mikilvægt með tilliti til smithættu.

Leiðir: Börnunum er hjálpað að tileinka sér almennar hreinlætisvenjur s.s. handþvott eftir salernisferðir, þrifnað eftir útiveru og fyrir og eftir máltíðir. Á salerninu skapast oft umræður um mannslíkamann og orðaforði og hugtakaskilningur eykst varðandi líkamann og starfsemi hans.

Frágangur og snyrtimennska
Einn liður í uppeldi og menntun barnanna er að þau læri að ganga frá fatnaði sínum og leikefni. Börnin eru þátttakendur í undirbúningi að ýmsum verkefnum, t.d. með því að sækja sér efnivið. Lögð er áhersla á að leikföng og efniviður sé aðgengilegur börnunum. Lögð er áhersla á að börnin gangi vel um leikskólann sinn beri virðingu fyrir leikefni úti sem inni svo og öllu umhverfi skólans.

Markmið: Að efla sjálfstæði barnsins og auka áhuga þess á ýmsum efniviði til verkefnavinnu. Börnin læri góða umgengni og snyrtimennsku.

Leiðir: Lögð er áhersla á að leikföng og efniviður sé aðgengilegur börnunum svo þau eigi auðvelt með að ganga frá eftir notkun. Frágangur er gerður auðveldur fyrir börnin með því að allir hlutir eigi sér ákveðinn stað og oftast merktan. Börnin eru hvött til að finna sér verkefni og taka til eftir sig.

NÁMSSVIÐ LEIKSKÓLA
Ákveðin námssvið eru undirstaða náms barnanna í leikskólanum. Þessi námssvið skarast öll að meira eða minna leyti og haldast í hendur við leik, daglegt líf og lífsleikni barnanna.

Málrækt
Tungumálið er mikilvægasta tæki manna til boðskipta. Með því tjá þeir hugsanir sínar og tilfinningar, skoðanir og fyrirætlanir. Í frumbernsku og á leikskólaaldri er lagður grundvöllur að málþroska barna. Segja má að málörvun gangi eins og rauður þráður í gegnum allt leikskólastarfið. Mikilvægt er að mál og málörvun greinist ekki frá öðrum uppeldisþáttum. Í Grænatúni er gott bókasafn sem börnin hafa aðgengi að og einnig nýtum við okkur Bókasafn Kópavogs þar sem bækur eru fengnar að láni. Lögð er áhersla á góða umgengni við bækur.

Markmið: Auka málskilning, orðaforða og örva skýran framburð, undirbúa börnin fyrir lestrarnám og vinna forvarnarstarf gegn lestrarörðugleikum.

Leiðir: Börnunum er skipt í hópa, ýmist í les- eða málörvunarhópa. Unnið er í gegnum leik þar sem allir eru virkir og gleðin ríkir. Farið er eftir fyrirmælum, einstaklingurinn er styrktur og hópvitund efld. Við leggjum áherslu á að börnin læri ljóð og þulur. Söng- og samverustundir eru á hverjum degi þar sem lögð er áhersla á málrækt.

Að hausti er tekið hljómpróf á elstu börnum leikskólans, en það er próf sem sett er fram í leikjaformi til að kanna hljóðkerfisvitund barna. Börn á aldrinum fjögra til sex ára eru flest komin með nokkuð gott vald á móðurmálinu. Á þessum aldri fara þau að leika sér að tungumálinu á annan hátt en áður. Þau fara að búa til ný orð og leika sér að bullríma eða finna hvaða orð ríma saman og hver ekki. Þessi leikur að orðum og hljóðum er undanfari lestrarnáms. Hæfnin og þroskinn að geta slíkt kallast á meðal fræðimanna hljóðkerfisvitund. Góður málþroski, þar á meðal hljóðkerfisvitund, eykur líkur á farsælu lestrarnámi.

Hreyfing
Börn hafa mikla þörf fyrir að hreyfa sig frjálst og óhindrað. Hreyfing stuðlar að líkamlegri og andlegri vellíðan, gleði, snerpu og þoli. Í leikskóla er hreyfiþörf virt og örvuð og börn læra að þekkja og skynja líkama sinn.

Markmið: Að efla líkamsvitund, fimi, fara eftir fyrirmælum, læra hugtök, stærðfræði o.fl. Efla rúm- og stöðuskyn og grófhreyfingar.

Leiðir: Börnunum er skipt í hópa og fer hver hópur einu sinni í viku í salinn. Farið er í þrautabraut, leiki og endað með slökun. Einnig er leikin ýmis tónlist í þessum stundum Með hækkandi sól notum við Fossvogsdalinn meira til útivistar og hreyfingar ásamt skipulögðu starfi í sal.

Myndsköpun
Börn hafa ríka þörf fyrir að tjá sig með myndmáli á skapandi hátt. Sköpun barna byggist á skynjun þeirra og reynslu. Í leikskólanum er lögð áhersla á að börnin tjái sig frjálst og að sköpunargleðin fái að njóta sín. Sjálft sköpunarferlið skiptir meira máli en útkoman.

Markmið: Að börn geti tjáð sig með myndmáli og æfa samhæfingu augna og handar. Þjálfa fínhreyfingar og læra að nota einföld tæki og verkfæri. Að barn þroski með sér einbeitingu og þróist stig af stigi við lausn flóknari verkefna. Að barn gleðjist með félögum sínum yfir sameiginlegu verki.

Leiðir: Myndsköpun fer fram í skipulögðu hópastarfi og einnig hafa börnin alltaf aðgang að fjölbreytilegum efnivið. Elstu börnin fara í myndsköpun undir leiðsögn myndlistarmanns einu sinni í viku.

Tónlist
Tónlist er ríkur þáttur í allri þjóðmenningu. Börn öðlast tónlistarþroska með því að fá fjölbreytta reynslu af tónlist og að kynnast hljóðum, tónum og hreyfingu í leik og starfi. Í leikskóla er umhverfi sem hvetur börnin til að fást við og njóta tónlistar á ýmsan hátt, stutt er við sjálfsprottinn söng barnanna og tilraunir með hljóðgjafa. Tónlist er mikilvæg fyrir alhliða þroska barna, ekki eingöngu sem þáttur í faguruppeldi, heldur einnig til eflingar tilfinninga- hreyfi- og vitsmunaþroska.

Markmið: Að efla hlustun, rím, hreyfingu, samkennd og frumkvæði. Einnig frjálsa og skapandi tjáningu og næmi fyrir hljóðum og hrynjandi.

Leiðir: Í samverustundum er mikið sungið af fjölbreyttum lögum, farið með þulur og rím sem koma inn á hreyfingu og hrynjanda. Mikið er hlustað á tónlist inni á deildum, ýmist í frjálsum leik eða hvíldarstundum. Sameiginleg söngstund allra deilda á leikskólanum er á föstudögum í salnum þar sem sungið er saman við undirspil. Deildir skiptast á að sjá um lagaval og skemmtiatriði sem er í formi söngs eða leikþátta.

Náttúra og umhverfi
Kynni barnsins við náttúruna eru þýðingarmikil fyrir þroska þess. Mikilvægt er að börn upplifi náttúruna af eigin raun og læri að bera virðingu fyrir lífríkinu og njóta hennar sér til yndisauka. Í leikskólum Kópavogs er unnið eftir ákveðinni umhverfisstefnu sem tekur til endurnýtingar, flokkunar á sorpi og þess að neysluvenjur leiði til betri nýtingar.

Markmið: Að stuðla að virðingu barnanna fyrir náttúrunni og náttúruvernd og þeim sé séð fyrir fjölbreyttum möguleikum á að kynnast henni, veðrinu og árstíðunum í fjölbreytileika sínum.

Leiðir: Í samverustundum er lögð áhersla á fræðslu um náttúruna. Börnin hafa góðan aðgang að barnabókmenntum þar sem hægt er að fræðast um náttúruna, göngu- og kynnisferðir eru farnar þar sem góð tækifæri gefast til að fræða börnin um náttúruna. Leikskólinn Grænatún er við Fossvogsdal sem býður upp á fjölbreytileika í útiveru , náttúruskoðun og vettvangsferðir. Einnig eru farnar ferðir á Náttúrufræðistofu Kópavogs.

Menning og samfélag
Maðurinn er þátttakandi í því samfélagi sem hann býr í. Hefðir eru ákveðin menning og tengsl við sögu okkar og fortíð. Í leikskólanum kynnist barnið ýmsu í menningu samfélagsins. Lögð er áhersla á að kenna börnunum að umgangast íslenska fánann með virðingu og hafa í heiðri þær reglur sem gilda um notkun hans. Í leikskólanum hafa með tímanum myndast ákveðnar hefðir sem eru mikilvægur hluti af menningu hans. Í hefðum felst öryggi og oftast eitthvað sem gleður hjartað, það að gera sér dagamun.

Afmælisdagur er stór dagur fyrir barnið, haldið er upp á hann í leikskólanum. Barnið fær kórónu og afmælissöngur er sunginn

Í tengslum við afmæli leikskólans þann 11. maí er haldin útihátíð í garðinum í leikskólanum, þar koma fram allir nemendur skólans en ættingjum og vinum er boðið á þessa hátíð. Börnin fara með þulur, leika leikrit, syngja o.fl. Síðan er boðið til sýningar á verkum barnanna og boðið upp á kaffi og meðlæti. Leikskólinn er öllum opinn til heimsókna í kringum þess hátíð.

Dagur íslenskrar tungu er 16. nóvember. Þá erum við búin að læra kvæði og þulur eftir Jónas Hallgrímsson.

1.desember er flaggað og byrjað að syngja jólalögin. Í desember eru ýmsar jólahefðir, málaðar piparkökur, föndrað, haldinn helgileikur í salnum þar sem jólaguðspjallið er fært í leikritsform og eru leikendur allir nemendur skólans. Foreldrum er boðið að horfa á. Elstu börnin fara í Árbæjarsafnið. Söngstundir eru að venju í salnum þar sem við syngjum saman jólalög og kveikjum á aðventukransi. Á þrettándanum eru jólin dönsuð út.

Þorrablót er haldið í leikskólanum með borðhaldi og söng í salnum.

Bolludag og Sprengidag er haldið upp á með hefðbundnum hætti. Á Öskudaginn er furðufataball og bíósýning.

Fyrir sumarfrí er farið í skrúðgöngu um nánasta umhverfi leikskólans, sungið og farið í leiki. Síðan borðum við úti í náttúrunni.

Útskrift elstu barna er með þeim hætti að farið er í stutta óvissuferð þar sem farið er í leiki og grillað.

Sinfóníuhljómsveit Íslands býður börnunum á tónleika árlega.

Hátíð er haldin í Salnum fyrir útskriftarnemendur leikskóla Kópavogs.

Íslenski fáninn er dreginn að húni innan dyra þegar börnin eiga afmæli og utan dyra á hátíðum leikskólans og öðrum sérstökum tilefnum.

LEIKSKÓLASTARF - LÍFSLEIKNI
Í daglegu lífi og leik barnsins fléttast saman fjölbreytt námssvið og námsþættir. Í leikskólanum er barnið í brennidepli og starfshættir taka mið af þroska og þörfum hvers einstaklings. Til þess að svo megi verða er leikskólastarfinu skipt í ýmiskonar leik-, náms- og samverustundir bæði inni og úti. Lögð er áhersla á að drengir og stúlkur hafi sama rétt, fái sama viðmót og njóti sömu hvatningar og örvunar til að taka þátt í öllum þeim viðfangsefnum sem leikskólinn býður upp á.

Útivera
Útivera býður upp á góða hreyfingu og er mikilvægur þáttur í leikskólauppeldi. Útivera er börnum holl, styrkir og eflir, eykur mótstöðuafl og matarlyst. Í útiverunni gefast ótal tækifæri til náms, t.d. um náttúruna og veðrið. Í útiverunni leika börnin sér mest frjálst, en einnig er boðið upp á skipulagða leiki, t.d. ýmsa hópleiki. Í Grænatúni fara öll börn út einu sinni til tvisvar á dag.

Markmið: Efla alhliða þroska og auka andlega og líkamlega heilsu, vellíðan, styrk og þol. Efla grófhreyfingar, frjálsan sjálfsprottinn leik, og tækifæri til sköpunar úr ýmsum efnivið sem fyrirfinnst úti.

Leiðir: Börnin geta hlaupið, hoppað stokkið og klifrað í hinum ýmsu leiktækjum sem eru í boði á leikskólalóðinni, rólað, vegið salt o.fl. Sandurinn er góður til sköpunar og snjórinn á veturna. Vatnsslangan er sett út svo og hamar, naglar og spýtur, einnig er farið í hópleiki og göngu- og vettvangsferðir.

Vettvangsferðir
Börnin fara oft í vettvangsferðir með starfsmönnum og tengjast þær gjarnan því námsefni/þema sem verið er að fjalla um hverju sinni. Vettvangsferð út í náttúruna eða heimsókn á vinnustað eða þjónustufyrirtæki gefur börnunum reynslu sem hægt er að vinna úr, t.d. í skapandi starfi. Þetta er hluti af menningu og samfélagsnámi barnanna.

Markmið: Að víkka sjóndeildarhring, kynnast menningu og listum. Tengjast nánasta samfélagi sínu og kynnast nánasta umhverfi og náttúru.

Leiðir: Ýmist er farið í vettvangsferðir í litlum eða stórum hópum. Reynt er að tryggja öryggi barnanna í öllum ferðum sem farnar eru. Börnin nota endurskinsvesti sem eykur öryggi þeirra í umferðinni. Aldrei er farið með börnin í einkabílum starfsmanna. Öll börn í leikskólum Kópavogs eru slysatryggð, einnig í þeim ferðum sem farnar eru á vegum leikskólans. Leitað er eftir leyfi foreldra til strætóferða. Fossvogsdalur er í næsta nágrenni Grænatúns og er hann mikið notaður til vettvangsferða sumar jafnt sem vetur.

Samverustundir
Í samverustundum eru lesnar sögur, sungið, farið í leiki og rætt saman. Einnig er í samverustundum fjallað um ýmis þemaverkefni sem verið er að vinna að. Ýmis fræðsla tengd menningu og listum fer fram, fjallað er um heiti daganna og mánaðanna og einnig er veðráttan og tíðarfarið rætt í tengslum við árstíðirnar. Samverustundir gegna mikilvægu hlutverki fyrir félags- og málþroska barnanna, þau tjá sig og læra að hlusta á aðra.

Markmið: Stuðla að alhiða námi, efla málþroskann, æfa einbeitingu og úthald læra að taka tillit til hvors annars, hlusta og eiga notalega stund saman.

Leiðir: Sungið, lesið, farið með þulur, börnin tjá sig með tali, umræður.

Hópvinna
Börn, sem eru saman í hóp, læra að þekkja hvert annað og treysta hvert öðru og er það grundvöllur að góðu samstarfi og vináttu. Börnunum er skipt í hópa eftir aldri og þroska og verkefnin og vinnan er miðuð við hvern aldurshóp.

Markmið:

 • Læra að starfa í hóp að sameiginlegu markmiði
 • Auka samskiptahæfni
 • Fylgja reglum og skilja fyrirmæli
 • Auka úthald og einbeitingu

Leiðir: Í hópastarfi eru börnin að störfum í sínum jafningjahópi með sínum hópstjóra við ýmsar æfingar og leiki.

 

Verkefni fyrir elstu börnin

Markmið með verkefnum elstu barnanna er

 • að efla sjálfstæði og frumkvæði
 • að efla hópkennd og samvinnuhæfni
 • að tryggja þeim krefjandi verkefni

Elstu börnin hafa mikla þörf fyrir að takast á við verkefni sem reyna á færni þeirra bæði andlega og líkamlega. Sérstök áhersla er lögð á að þetta eru leikskólaverkefni og að hugmyndafræði og starfsaðferðir leikskóla eru lagðar til grundvallar. Með ýmsum krefjandi verkefnum læra þau að fullvinna verk sín, þjálfa einbeitingu, færni og úthald. Í Grænatúni, er unnið eftir sérstakri námskrá fyrir elstu börnin og er sama námskráin í öllum leikskólum Kópavogs.

Nám án aðgreiningar - sérkennsla
Leikskólinn er fyrir öll börn á leikskólaaldri. Í leikskóla eru börn með mismunandi atgervi og frá ólíkum menningarheimum. Leitast er við að hvert einstakt barn fáist við viðfangsefni við sitt hæfi. Mikilvægt er að félagsskapur og samskipti barnanna bindi þau vináttuböndum og styrki samkennd þeirra. Í leikskólanum er það talinn ávinningur fyrir alla að eiga þar fjölbreytt samfélag.

Börn með fötlun og börn með frávik í þroska fá sérkennslu samkvæmt reglum sem sveitarfélagið setur þar um. Meginreglan er að sérkennslan fari fram í hópnum með öðrum börnum. Í leikskólann eru ráðnir kennarar með sérþekkingu, t.d. leikskólasérkennarar, leikskólakennarar og/eða þroskaþjálfar og eru þeir ásamt deildarstjóra ábyrgir fyrir því að gerðar séu áætlanir vegna barnanna og þeim framfylgt.

Markmið með sérkennslu er

 • að styðja barnið þannig að það geti notið leikskóladvalar sinnar
 • að skapa aðstöðu til að barnið geti þroskast sem best á eigin forsendum

Ef grunur leikur á að barn þarfnist sérkennslu er fylgst sérstaklega með því og í framhaldi af því eru gerðar ráðstafanir sem hægt er að gera innan ramma leikskólastarfsins. Ef ástæða þykir til frekari aðgerða er í samráði við foreldra barnsins kallaður til sérkennslufulltrúi til frekari ráðgjafar.

Lífsleikni
Með lífsleikni er átt við hæfni til að takast á við lífið sjálft. Segja má að leikskólanámið sé í raun samfellt lífsleikninám. Til að öðlast lífsleikni þarf barnið að læra umburðarlyndi í samskiptum sínum og samneyti við aðra, læra að bera virðingu fyrir ólíku atgervi, skoðunum og menningu. Vinátta og samkennd er dýrmætt veganesti og góður undirbúningur undir virka þátttöku í félagslífi og samstarfi síðar í lífinu. Barnið þarf að tileinka sér lífsgildi, reglur, venjur og hefðir sem ríkja heima, í leikskólanum og í samfélaginu í heild. Í leikskólanum er frumkvæði barnanna eflt og styrkt, þannig verða þau hæfari til að takast á við líf og starf í lýðræðissamfélagi. Þau eiga að taka þátt í ákvörðunum sem varða líf þeirra og leik eftir því sem aldur og þroski leyfa. Í leikskóla á barnið að fá tækifæri til að læra að leysa deilur á jákvæðan og friðsamlegan hátt og læra að gleðjast með öðrum og lifa í sátt við sjálft sig og umhverfi sitt.

INNRA GÆÐAMAT – SJÁLFSMAT LEIKSKÓLA
Samkvæmt reglugerð ber leikskóla að móta aðferðir til að meta uppeldisstarfið svo og stjórnunarhætti, samskipti innan leikskólans og tengsl við aðila utan hans. Í leikskólum Kópavogs er ECERS-kvarðinn, sem tekur til allra þátta í leikskólastarfinu, notaður við matið og einnig eru sérstakir listar til að meta samstarf og samskipti starfsfólksins.

FORELDRASAMSTARF - SAMVINNA
Leikskólinn er lögum samkvæmt fyrsta skólastigið í menntakerfinu og annast að ósk foreldra nám barna á leikskólaaldri. Foreldrar bera meginábyrgð á uppeldi barna sinna, en leikskólanám er viðbót við uppeldi foreldra, en er á engan hátt ætlað að koma í stað þess. Á þessum grundvallaratriðum byggist foreldrasamvinna. Mikilvægt er að foreldrar þekki kennara barnsins og annað starfsfólk leikskólans og að samskiptin byggist á gagnkvæmri virðingu og trausti.

Markmiðið með foreldrasamstarfi er

 • að rækta samvinnu og samskipti leikskólans og heimilanna
 • að veita foreldrum upplýsingar um starfsemi leikskólans
 • að stuðla þátttöku foreldra í starfi leikskólans

Meginhlutverk leikskóla felst í því að veita börnum leikskólamenntun, en jafnframt er leitast við að koma til móts við óskir foreldra svo framarlega að það komi ekki niður á gæðum í starfi leikskólans og aðbúnaði og umönnun barnanna. Dagleg samskipti og upplýsingastreymi eru mikilvægir þættir til að stuðla að jákvæðu og traustu sambandi milli foreldra og leikskóla. Áhersla er lögð á að samstarf og samvinna sé við báða foreldra barnsins.

Góð samvinna foreldra og leikskóla er forsenda fyrir árangursríkri dvöl í leikskólanum og góðri líðan barnsins. Samvinna foreldra og leikskóla þarf að byggjast á gagnkvæmri virðingu og opnum samskiptum. Foreldrar eru ávalt velkomnir í leikskólann Grænatún og taka þátt í starfinu. Foreldraviðtöl eru einu sinni á ári og oftar ef þörf krefur. Foreldrafundir, fræðslufundir og umræðufundir eru haldnir, ýmist á vegum leikskólans eða foreldrafélagsins. Leikskólinn gefur út fréttabréf. Á öllum deildum leikskólans eru upplýsingatöflur. Við leikskólann er starfandi foreldrafélag. Einnig er rétt að benda á heimasíðu leikskólans

Velkomin í leikskóla
Samstarf milli heimilis og leikskóla hefst áður en barnið byrjar í leikskólanum. Á meðan barnið er í aðlögun er lagður grunnur að gagnkvæmum kynnum, trausti og virðingu á milli foreldra og leikskóla. Leikskólinn hefur gefið út kynningarrit til að auðvelda foreldrum að kynnast starfsemi leikskólans. Í kynningarritinu er einnig útdráttur úr námskrá leikskólans.

Aðlögun
Aðlögun barns er einn þáttur í uppeldisstarfinu og skiptir miklu máli fyrir líðan barnsins hvernig til tekst. Að byrja í leikskóla er ný reynsla, allt er framandi og ókunnugt og því er mikilvægt að vel sé staðið að málum. Með því er lagður góður grunnur að framtíðinni. Markmiðið er að efla öryggiskennd og vellíðan barnsins og foreldra þess í framandi aðstæðum og stuðla að gagnkvæmum kynnum á milli fjölskyldu barnsins og leikskólans, mikilvægt er að báðir foreldrar taki þátt í aðlöguninni.

Það er ný reynsla fyrir barnið þegar það færist á milli deilda. Leikskólakennarar vinna að því að auðvelda hverju barni þau skipti.Í Grænatúni fer fram einstaklingsaðlögun. Áður en barn byrjar í leikskólanum eru foreldrar boðaðir í viðtal til leikskólastjóra. Aðlögun tekur u.þ.b. viku. Deildarstjórar skipuleggja aðlögun í samstarfi við starfsfólk deildarinnar. Starfsfólk sér yfirleitt um aðlögun þegar barn færist milli deilda. Foreldrum er velkomið að fylgja barni sínu á milli deilda ef þeir óska þess

Trúnaður - tilkynningarskylda
Leikskólinn leggur áherslu á að fullur trúnaður ríki um allar upplýsingar er varða börnin og foreldra þeirra. Hverjum starfsmanni er skylt að gæta þagmælsku um atriði er hann fær vitneskju um í starfi sínu. Allt starfsfólk leikskóla undirritar sérstakt þagnarheit sem helst þó látið sé af starfi. Umsækjendur um starf í leikskólum Kópavogs þurfa að heimila leikskólafulltrúa að afla upplýsinga af sakaskrá um hvort viðkomandi hafi gerst sek/ur um kynferðis-eða ofbeldisbrot, sbr. XXII. og XXIII.Kafla almennra hegningarlaga nr.19/1940.

Ef leikskólakennarar telja að líkamlegum og/eða andlegum þörfum barns sé ekki sinnt ber að tilkynna það barnaverndaryfirvöldum Kópavogsbæjar, sbr. 13. gr. laga um málefni barna og ungmenna.

Foreldrafundir
Foreldrafundur er haldinn að hausti í samvinnu við foreldrafélag leikskólans. Á foreldrafundinum eru gefnar margvíslegar upplýsingar um leikskólastarfið. Námskrá leikskólans er kynnt ásamt námsefni vetrarins. Skipst er á skoðunum um leikskólauppeldi og þátttöku foreldra í leikskólastarfinu.

Foreldrasamtöl
Deildarstjórar og/eða leikskólakennarar veita foreldrum einkasamtal einu sinni á ári og oftar ef þörf krefur. Leikskólakennari upplýsir foreldra um stöðu og líðan barnsins í leikskólanum, hann byggir upplýsingar sínar um barnið á athugunum á færni þess og þroska í leik og starfi í barnahóp. Í foreldraviðtölum gefst foreldrum tækifæri til að spyrja spurninga og veita upplýsingar um barnið.

Foreldrafélag
Foreldrafélag er starfandi við leikskólann. Verkefni foreldrafélaga eru margvísleg og geta félögin stutt mjög vel við starfið í leikskólunum og því er það hagur hvers leikskóla að hafa öflugt og virkt foreldrafélag. Báðir foreldrar eru hvattir til að taka virkan þátt í starfi foreldrafélagsins. Foreldrafélagið kýs sér stjórn og foreldraráð á haustfundi leikskólans sem fer fyrir félaginu og hittist reglulega yfir veturinn. Leikskólakennari við leikskólann er tengiliður við þetta ráð og situr fundi þeirra.

Mat foreldra
Foreldrum gefst kostur á að leggja mat sitt á starfsemi leikskólans og er sérstakur listi ætlaður til þess. Listinn er lagður fyrir u.þ.b. annað hvert ár. Niðurstöður gefa kennurum leikskólans góðar vísbendingar um hvað foreldrar eru ánægðir með og hvað mætti betur fara í starfinu.

SAMSTARFSAÐILAR
Leikskólinn hefur samvinnu við ýmsa aðila. Mikilvægt er að þessi samvinna byggi á gagnkvæmri virðingu og trausti. Hér er t.d. átt við aðra skóla, heilsugæslu, ráðgjafa- og sálfræðiþjónustu og barnaverndaryfirvöld. Þá er oft samstarf og tengsl við ýmsar stofnanir og aðila í nágrenni leikskólans.

Samvinna við grunnskóla er mikilvægur þáttur í leikskólastarfinu. Samvinna á milli grunnskóla og leikskóla hefur það að markmiði að auðvelda barni að flytjast milli skólastiga og að samfella og stígandi skapist í námi og starfi barnsins. Samstarf er við grunnskólann í hverfinu en það er Snælandsskóli. Samstarfið byrjar strax að hausti og eru fastar heimsóknir 6 ára barna skólans hingað og 5 ára barna héðan. Upplýsingar um einstök börn geta fylgt þeim í grunnskóla, upplýsingar um börn sem hafa fengið sérkennslu í leikskóla, fara til grunnskóla í gegnum skólaskrifstofur. Engar upplýsingar eru gefnar um börn nema með samþykki og vitund foreldra.

ÁRSÁÆTLUN
Ársáætlun er unnin fyrir hvert leikskólaár, frá 1. september til 31. ágúst. Í ársáætlun koma fram helstu þættir sem áætlað er að taka fyrir næsta leikskólaár, t.d. þemaáætlun, sérstök markmið eða áhersluþættir, foreldrafundir, starfsmannafundir o.fl. Ársáætlun er unnin eftir ákveðnu formi, því sama fyrir alla leikskóla Kópavogs. Helstu atriði ársáætlunar eru færð inn á sérstakt eyðublað sem dreift er til foreldra og er einnig á heimasíðu leikskólans.

ÁRSSKÝRSLA
Samkvæmt lögum ber leikskólastjóra að gera rekstraraðila grein fyrir starfi síðastliðins leikskólaárs. Ársskýrsla er unnin eftir ákveðnu formi, því sama fyrir alla leikskóla Kópavogs.

Leikskólafulltrúi vinnur sameiginlega ársskýrslu fyrir alla leikskóla Kópavogs og er hún m.a. send leikskólanefnd Kópavogs, menntamálaráðuneytinu o.fl.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica