Sími 441 6400

Fréttir og tilkynningar

Jólafréttabréf - 23.11.2017

Senn koma jólin og er undirbúningur þeirra hafinn hér í Grænatúni.  Við höldum að sjálfsögðu í okkar venjur og siði sem hafa skapast hér í gegnum árin. 

Rauður dagur verður föstudaginn 1. desember en þá munum við mæta í rauðum fatnaði í skólann og borða rauðan mat J  í söngstundinni okkar munum við kveikja á fyrsta kertinu okkar á aðventukransinum sem heitir Spádómskertið. 

Miðvikudaginn 6. desember 2017 kl: 14:00 mun Bernd Ogrodnik sýna brúðuleikritið  „Pönnukakan hennar Grýlu í sal leikskólans.  Þetta er skemmtileg og falleg jólasaga sem er unnin upp úr evrópskri þjóðsögu.  Brúðuleikritið er í boði foreldrafélagsins.

Helgileikurinn okkar verður á sínum stað 7. og 8. desember.  Skessudeild verður í aðalhlutverki fimmtudaginn 7. desember og þá eru foreldrar á Skessudeild velkomnir.  Föstudaginn 8. desember verða börnin á Trölladeild í aðalhlutverkum og börnin á Dvergadeild fá að vera með og þá eru foreldar barna á þeim deildum velkomnir.  Sýningar hefjast báða dagana kl:9:30.  Eftir helgileikina er foreldrum boðið með börnum sínum inn á deildar í smá hressingu.  Vonandi  geta sem flestir foreldrar séð af tíma til að setjast niður og spjalla svolítið.

Sunnudaginn 10. desember kl: 11-13 ætlar foreldrafélagið að vera með hið árlega jólaball í Snælandsskóla Foreldrafélagið verður með heitt kakó á boðstólnum og svo koma allir foreldrar með eitthvað gott á sameiginlegt hlaðborð. 

Mánudaginn 11. desember fara elstu börnin (2012) á Árbæjarsafn og skoða hvernig haldið var upp á jólin í gamla daga. 

Föstudaginn 15. desember verður hátíðardagur hjá okkur þar sem hátíðarmorgunmatur og hátíðarhádegismatur verða bornir fram, hátíðarsöngstund, jólabíó og dansað í kringum jólatréð.  Það verður sannkölluð hátíðarstemning í húsinu.

Að lokum “dönsum við jólin út“ föstudaginn 5. janúar 2018.

Við munum að sjálfsögðu syngja mikið og lesa jólasögur og kvæði, auk þess sem við föndrum.  Allt verður þetta þó í hófi og við leggjum upp með rólegheit og sleppum öllu stressi. 

 

Við viljum ítreka að Stekkjastaur kemur til byggða fyrstur bræðra og fer skórinn út í glugga að kvöldi 11. desember og ekki fyrr

Við óskum ykkur öllum gleðilegrar hátíðar og þökkum fyrir árið sem er að líða og óskum ykkur velfarnaðar á nýju ári 2018. 

Vinavikan - 10.11.2017

Í þessari viku hefur verið vinavika og hefur hún gengið mjög vel. Krakkarnir hafa verið spennt að vinna með börnum af öðrum deildum . Þetta hefur ekki síður verið skemmtilegt fyrir okkur starfsfólkið. Öll vikan hefur verið undirlögð af ýmsum viðburðum. Við fórum í vinagöngu á mánudag, á þriðjudaginn bjuggum við til lauf á vinatréð sem er í salnum, á miðvikudag fóru elstu börnin í vinagöngu með nemendum úr Snælandsskóla, á fimmtudaginn gerðum við vinabönd sem við gáfum vinum okkar og í dag horfa allir saman á vinabíó 
 


 

Fyrirlestur um einelti - 30.10.2017

Foreldrum og starfsfólki skóla er boðið á fyrirlestur :

Einelti í samfélagi

8. nóvember 2017 kl. 17.30 í Fagralundi, Furugrund 83

Fyrirlesari: Vanda Sigurgeirsdóttir lektor í tómstunda- og félagsmálafræðum

Vanda Sigurgeirsdóttir, lektor við HÍ, fjallar um rannsóknir á einelti, hvernig foreldrar og fagfólk geta komið auga á einelti ásamt því að gefa góð ráð um forvarnir og inngrip. Vanda hefur á undanförnum árum rannsakað einelti frá mörgum sjónarhornum, auk þess sem hún hefur farið í ótal stofnanir, félög og foreldrahópa með ráðgjöf og fræðslu.

 

Bangsadagurinn- 3. nóvember - 24.10.2017

Föstudaginn 27. október er hinn alþjóðlegi bangsadagur. Við höfum ákveðið að halda upp á hann föstudaginn 3. nóvember og þá  mega börnin koma í náttfötum/kósýgalla og með bangsa með sér í leikskólann


Lesum saman- Lestrarátak í Grænatúni - 23.10.2017

Grunnur að góðri færni í lestri er lagður á fyrstu árum barns. Foreldrar, leikskólakennarar og aðrir sem koma að uppeldi barna koma því að mikilvægum undirbúningi við að gera börn tilbúin til að takast á við lestrarnám.

Flestir foreldrar lesa fyrir barnið sitt frá unga aldri. Að lesa fyrir barn er afar gott veganesti  út í lífið og skapar viðhorf um að hægt er að hafa bæði gagn og gaman af. Með lestri lærir barn ómeðvitað ýmislegt gagnlegt sem gagnast síðar við lestrarnám. Það lærir að hlusta og einbeita sér og eflir orðaforða . Mikilvægt er að barn og fullorðinn ræði ýmislegt sem lesturinn gefur tilefni til. Gott er að staldra við í lestrinum og m.a.

·        Ræða persónur, atburði,  velta fyrir sér hvað gerist næst.

·        Tala um merkingu einstakra orða.

·        Finna staf barnsins eða annara í fjölskyldunni.

 

Dagana 23. október – 16. nóvember ætlum við að vera með lestrarátak hér í Grænatúni. Á hverri deild verður úrval af bókum þar sem börnin geta fengið lánaða bók í leikskólanum og farið með heim. Börn og foreldrar kvitta svo fyrir hverja lesna bók (einn kross á dag) á blað sem þau fá heim með sér. Í lok lestrarátaksins skila börnin blaðinu útfylltu á sína deild og fá afhenta bókagjöf á degi íslenskrar tungu 16. nóvember.Fréttasafn


Atburðir framundan

Draugavika 8.1.2018 - 12.1.2018

Þessa viku ætlum við að hafa “Draugaþema” hér í Grænatúni. Við ætlum að lesa draugasögur, búa til leikrit/skuggaleikhús, börnin búa til drauga og margt fleira. Ef þið eigið eitthvað heima um drauga, bækur, hluti eða jafnvel kannski mynd um drauga þá mega börnin endilega koma með það í leikskólann og einnig mega þau koma með vasaljós þessa viku.         

 

Skipulagsdagur 17.1.2018

Í dag er skipulagsdagur og leikskólinn er lokaður

 

Bóndadagurinn- Opið hús fyrir feður og afa 19.1.2018 8:00 - 9:00

Í tilefni bóndadagsins verður opið hús fyrir feður og afa í dag kl 8:00- 9:00

Börnin syngja í salnum kl 8:30
Við vonumst til að sjá sem flesta :)
 

Þorrablót 19.1.2018 11:00 - 12:00

Í dag sameinast börnin inni í sal og borða hangikjöt og fá svo að smakka þorramat og  syngja minni kvenna og minni karla. Gaman væri ef börnin gætu komið með gamla og þjóðlega muni að heiman í vikunni.

 

Dagur leikskólans 6.2.2018

6. febrúar er dagur leikskólans og í tilefni af því ætlum við í ljósagöngu í lundinn okkar fyrir neðan hús. Við syngjum þar nokkur lög og allir eru velkomnir með vasaljósin sín. Þegar því er lokið drífum við okkur í leikskólann og fáum okkur kakó og ristað brauð

 

Fleiri atburðir