Útgáfa handbókar

Snemmtæk íhlutun í leikskólastarfi.

Leikskólinn Grænatún var einn af tíu leikskólum í Kópavogi sem fengu tækifæri til þess að taka þátt í þróunarverkefn um snemmtæka íhlutun í málörvun.  Farið var í mikla vinnu við að flokka allt málörvunarefnið og verkferla sem snúa að málþroska.  Ferlið hefur verið lærdómsríkt og skemmtilegt og er útkoman handbók um málörvun.  Nú hefur verkefnið litið dagsins ljós og erum við mjög ánægð með útkomuna.  

Þær Sólveig María Kjartansdóttir sérkennslustjóri og Þórunn Jóhannsdóttir deildarstjóri stýrðu þessu verkefni hér í Grænatúni.

Snemmtæk íhlutun í leikskólastarfi.pdf

Jólasveinar komu í heimsókn og glaðningur frá Foreldrafélagi

Jólaskemmtun sem haldin var í leikskólagarðinum í boði Foreldrafélags Grænatúns var afar vel heppnuð og slógu Hurðaskellir og Kertasníkir í gegn hjá börnunum. Flest börnin voru mjög spennt fyrir þeim félögum og nutu þess að syngja með þeim þó að alltaf séu einhverjir sem eru minna hrifnir og halda sig í smá fjarlægð. Við fengum einstaklega gott en kalt veður og bæði fullorðnir og börn skemmtu sér konunglega.

Við þökkum kærlega fyrir frábæran glaðning á kaffistofu starfsfólks sem foreldrafélag Grænatúns færði okkur.

Í jólamánuðinum þá leggjum við áherslu á að halda í rútínuna okkar hér í Grænatúni þó við brjótum hana einnig upp með ýmsu skemmtilegu sem tengist jólunum.
Við leggjum áherslu á að draga úr þeirri spennu sem jólamánuðurinn getur oft valdið og sláum rólegheita taktinn með jólasöngvum og gleði sem gefa okkur ljúfan tón inn í aðventuna.