Leikskólanám

 

 

Leikskólinn er fyrsta stig skólakerfisins og upphaf formlegrar menntunar einstaklinga. Leikskólaaldurinn er mikilvægur tími náms og þroska. Í samstarfi við foreldra á leikskólinn að kappkosta að veita öllum börnum tækifæri til að njóta bernsku sinnar ásamt því að stuðla að öryggi þeirra og vellíðan. Leggja ber áherslu á styrkleika barna og hæfni og að litið sé á þau sem fullgilda þátttakendur í samfélagi leikskólans. Í leikskólastarfi mynda hugtökin uppeldi, umönnun og menntun eina heild þar sem börnum er sýnd virðing og umhyggja.

Leikskólanám á að efla alhliða þroska barna, þ.e.a.s. efla mikilvægustu þroskaþætti sem samtvinnast hjá barninu. Þessir meginþættir og samspil þeirra varða líkamsvöxt barna og hreyfifærni, tilfinningalíf, vitsmuni, félagsvitund og félagshæfni, fegurðarskyn og sköpunarhæfni, siðgæði og lífsviðhorf.

Í leikskólastarfi er barnið í brennidepli og starfshættir eiga að taka mið af þroska og þörfum hvers barns. Leikskólanám er samþætt nám þar sem námssvið og námsþættir fléttast inn í daglegt líf og leik barnsins.