Jólafréttabréf Grænatúns 2025

Kæru foreldrar.

Senn koma jólin og er undirbúningur þeirra hafinn hér í Grænatúni.

Við höldum að sjálfsögðu í okkar venjur og siði sem hafa skapast hér í gegnum árin.

Föstudaginn 28. nóvember munum við í söngstundinni okkar kveikja á fyrsta kertinu á aðventukransinum sem heitir Spádómskertið. Einnig er Rauður dagur í leikskólanum þennan dag en þá munum við mæta í rauðum fatnaði í skólann.

Helgileikur fyrir foreldra. Miðvikudaginn 3. desember kl 14:30 verður Skessudeild í aðalhlutverki og þá eru foreldrar á Skessudeild velkomnir.
Fimmtudaginn 4. desember kl: 14:30 verða börnin á Trölladeild í aðalhlutverkum og börnin á Dvergadeild verða í kórhlutverki og þá eru foreldar barna á þeim deildum velkomnir. Eftir helgileikina er foreldrum boðið með börnum sínum inn á deildar í smá hressingu. Vonandi geta sem flestir foreldrar séð af tíma til að setjast niður og spjalla svolítið.

Mánudaginn 8. desember kl: 10:00 ætlar foreldrafélagið að bjóða upp á jólasveinaheimsókn í garðinn okkar fyrir börnin.

Miðvikudaginn 10. desember og fimmtudaginn 11. desember fara elstu nemendur leikskólans (2 hópar) í Árbæjarsafn að skoða og fræðast um hvernig jólin voru í gamla daga.

Miðvikudaginn 17. desember verður hátíðardagur hjá okkur þar sem hátíðarmorgunmatur og hátíðarhádegismatur verða bornir fram, hátíðarsöngstund, jólabíó og dansað í kringum jólatréð. Það verður sannkölluð hátíðarstemning í húsinu.

Við minnum á að leikskólinn er lokaður frá og með 24. desember til og með 4. janúar 2026 nema fyrir þau börn sem eru sérstaklega skráð (29., 30. des og 2. jan ), en þeir foreldrar sem skráðu börnin sín munu fá nánari upplýsingar um það hvaða leikskóla börnin fara í þegar nær dregur.

Leikskólinn opnar aftur mánudaginn 5. janúar 2026.

Að lokum “dönsum við jólin út“ þriðjudaginn 6. janúar 2025. Við munum að sjálfsögðu syngja mikið og lesa jólasögur og kvæði, auk þess sem við föndrum. Allt verður þetta þó í hófi og við leggjum upp með rólegheit og sleppum öllu stressi.

Við viljum benda á að Stekkjastaur kemur til byggða fyrstur bræðra og fer skórinn út í glugga að kvöldi 11. desember og ekki fyrr. Við vonum að jólasveinar stilli skógjöfum í hóf.

Við óskum ykkur öllum gleðilegrar hátíðar og þökkum fyrir árið sem er að líða og óskum ykkur velfarnaðar á nýju ári 2026


Jóla og nýárskveðjur, starfsfólk Grænatúns