Hljóm - 2

HLJÓM-2 er eingöngu ætlað til notkunar fyrir leikskólakennara/fagfólk leikskóla sem vinnur með elstu börnum leikskólans.

En hvað er HLJÓM-2 og hver er tilgangurinn með þessu leikjaprófi? HLJÓM-2 er greiningartæki, aldursbundin skimun sem er lögð fyrir til að meta hljóðkerfis- og málmeðvitund barna í elsta árgangi leikskólans í því skyni að greina þau börn sem eru í áhættu fyrir síðari lestrarerfiðleika. Slök hljóðkerfis- og málvitund er talin aðalorsök lestrarvanda hjá 88% barna (9 af hverjum 10 börnum). Síðustu 30 ár a.m.k. hefur mikil áhersla verið á að börnum sé strax frá unga aldri boðið markvisst upp á leiki og verkefni til örvunar hljóðkerfis- og málmeðvitundar þeirra og að þeim sem virðist eiga í erfiðleikum sé sinnt sérstaklega. Leikskólaárin eru því sérlega mikilvæg fyrir snemmtæka íhlutun.

Niðurstöður þátttakenda í rannsókninni (268 börn) hafa verið bornar saman við niðurstöður sömu  barna í lestri í fyrsta, öðrum og fjóða bekk (samræmt próf í íslensku) og er fylgnin mjög há. Niðurstöðurnar eru marktækar vísbendingar um hvaða börn eru í áhættu fyrir síðari lestrarörðugleika.

EFI - 2 málþroskaskimun

EFI-2 er málþroskaskimun fyrir börn á fjórða ári. Barn og kennari eiga rólega stund og skoða saman myndabók. Svör barnsins gefa vísbendinu um hvar það er statt í málþroskaferlinu. Þessi skimun kannar málskilning og tjáningarfærni barnsins og tilgangurinn er að finna þau börn sem þurfa á stuðningi að halda. Með því að finna börn með málörðugleika er hægt að bæta úr með snemmtækri íhlutun.