Barnasáttmálinn á Íslandi

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins eða Barnasáttmálinn, eins og hann er oft kallaður, var samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 20. nóvember 1989. Hann var undirritaður fyrir Íslands hönd 26. janúar 1990, Alþingi heimilaði ríkisstjórn að fullgilda hann með ályktun 13. maí 1992 og öðlaðist hann gildi að því er Ísland varðar hinn 27. nóvember 1992. Barnasáttmálinn var svo loks lögfestur 20. febrúar 2013. 

Þó að Barnasáttmálinn hafi verið fullgiltur hér á landi árið 1992 og íslenska ríkið hafi verið skuldbundið að þjóðarétti til að uppfylla ákvæði sáttmálans var sjaldan vitnað í ákvæði hans við úrlausn mála hjá stjórnvöldum og dómstólum og dæmi voru um að dómar hafi beinlínis verið í andstöðu við ákvæði hans. Var lögfesting Barnasáttmálans því mikilvæg til að tryggja að honum verði í auknum mæli beitt í framkvæmd og hafi þannig bein réttaráhrif. 

Barnasáttmálinn hefur verið staðfestur af nánast öllum aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna og er hann sá mannréttindasamningur sem hefur verið staðfestur af flestum þjóðum.

Hvað felst í Barnasáttmálanum ?

Samningurinn felur í sér alþjóðlega viðurkenningu á að börn séu hópur sem þarfnist sérstakrar verndar umfram hina fullorðnu og að réttinda þeirra hafi ekki verið nægilega gætt í fyrri mannréttindasamningum. Jafnframt felst í honum viðurkenning á því að börn séu fullgildir einstaklingar með sjálfstæð réttindi; þau eigi sín eigin réttindi – óháð réttindum fullorðinna. 

Barnasáttmálinn hefur að geyma réttindi mjög víðtæks eðlis. Hann kveður á um vernd tiltekinna grundvallarmannréttinda barna, svo sem réttinn til lífs, friðhelgi fjölskyldu- og einkalífs, félaga-, skoðana-, tjáningar- og trúfrelsis. Jafnframt leggur hann skyldur á aðildarríkin til að grípa til aðgerða til að tryggja velferð barna, m.a. á sviði mennta-, heilbrigðis- og félagsmála. Samningurinn hefur ítarlegan inngang og 54 efnisgreinar. Þar af fjallar 41 efnisgrein um hvaða réttinda öll börn skuli njóta en hinar 13 greinarnar fjalla um hvernig samningnum skuli framfylgt. Ákvæði samningsins skal skoða heildstætt. Efnisreglurnar ber því að lesa og túlka í samhengi.

Samkvæmt samningnum ber aðildarríkjunum að kynna efni hans með virkum hætti jafnt fyrir börnum sem fullorðnum. Er það mikilvæg forsenda þess að borgararnir geti veitt stjórnvöldum virkt aðhald í þessu efni.

 

 

Bæjarstjórn Kópavogs samþykkti 22. maí 2018 að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.  Lögð er áhersla á að vinna með grunnstoðir Barnasáttmálans en grunnstoðirnar  eru greinar; tvö sem fjallar um jafnræði og enga mismunun, grein þrjú sem fjallar um að við gerum ávallt það sem barni fyrir bestu, grein sex sem fjallar um rétt barns til að lifa og þroskast og að síðustu grein tólf sem fjallar um rétt barns til að tjá sig. 

Lýðræði og mannréttindi fléttast í gegnum allt starf í leikskólanum Grænatúni og kallast á við grunnstoðir Barnasáttmálans.

Hérna er hægt að kynna sér nánar um Barnasáttmálann og innleiðingarferli hans hjá Kópavogsbæ.