Mikilvægi lesturs 

Aðeins nokkurra mánaða gömul læra börn að skoða myndir í bók, hlusta þegar lesið er og benda á hluti á myndum. Lestur hjálpar barninu að öðlast ríkari orðaforða því orðaforði í bókum er annar og meiri en sá sem barnið heyrir í töluðu máli. 

Orðaforði er nauðsynlegur þegar kemur að læsi og framvindu náms í grunnskólanum. Eftir því sem orðaforðinn er meiri þeim mun betri verður lesskilningurinn.

Lesið fyrir eldri leikskólabörn

Almenn atriði 
 • Leyfðu barninu að velja bók. Ef það velur alltaf sömu bókina er hægt að segja að þú ætlir að lesa tvær bækur og leyfa barninu að velja hvora þeirra á að lesa fyrst. Mikilvægt er að auðga málið með fjölbreyttu lesefni og orðaforða.
 • Vertu viss um að hafa fangað athygli barnsins þegar þú byrjar að lesa. Notaðu áherslur og túlkun sem hæfir lesefninu og til að tryggja að barnið haldi athyglinni.
 • Aðlagaðu lestrarhraðann að textanum, t.d. þegar lesefnið er spennandi er gott að hægja á lestrinum til að auka áhrif þess enn frekar.
 • Lestu bæði bækur með og án mynda. Bækur án mynda örva frekar ímyndunaraflið og þjálfa virka hlustun.
Áður en lesið er 
 • Kynntu höfundinn til sögunnar, sérstaklega ef þið hafið áður lesið eftir sama höfund. Þá er hægt að rifja upp hversu skemmtileg hin bókin var (eða bækur).
 • Skoðið saman bókakápuna. Lestu titilinn og spurðu spurninga á við „Um hvað heldurðu að bókin sé?“
 • Stundum er betra að kynna lauslega aðalsöguhetjurnar, hvenær sagan gerist og hvar.
Á meðan á lestri stendur
 • Spurðu spurninga endrum og eins til að tryggja að barnið skilji textann og nái samhenginu auðveldlega, t.d. „Af hverju langaði Jóa í mótorhjól?“ eða „Hvað heldurðu að gerist næst?“
 • Staldraðu við orð sem þú heldur að barnið skilji ekki. Útskýrðu orðið og settu í annað samhengi. Þannig er líklegra að orð festist barninu í minni.
 • Útskýrðu einnig flókin hugtök og aðstæður sem barnið hefur ekki heyrt um áður.
Eftir að lestri er lokið
 • Veltið fyrir ykkur sögunni, t.d. með því að tala um hvað ykkur fannst skemmtilegast við hana eða hver var uppáhalds sögupersónan.
 • Talið um sögubygginguna, þ.e. um hvað var sagan, hvaða „vandamál“ voru leyst o.s.frv.
 • Spurðu barnið spurninga um af hverju sagan fór eins og hún fór, af hverju sögupersónurnar gerðu það sem þær gerðu, hvort sagan hefði getað farið öðruvísi eða hvað barnið hefði gert í sporum aðal sögupersónunnar.
 • Ef barnið hefur haft mikinn áhuga á sögunni er kjörið að biðja það að endursegja hana í stuttu máli fyrir einhvern sem ekki hefur heyrt hana.

Lesið fyrir 1-2 ára gömul börn

Aðeins nokkurra mánaða gömul læra börn að skoða myndir í bók, hlusta þegar lesið er og benda á hluti á myndum. Lestur hjálpar barninu að öðlast ríkari orðaforða því orðaforði í bókum er annar og meiri en sá sem barnið heyrir í töluðu máli. Hér á eftir fara nokkur atriði sem gott er að hafa í huga þegar lesið er fyrir börn á fyrsta og öðru aldursári.

 • Pappabækur með þykkum blaðsíðum rifna síður en aðrar. Þó er mikilvægt að barnið læri snemma að umgangast allar bækur af varúð og virðingu, opna, fletta, loka og ganga frá.
 • Leyfðu barninu að hjálpa til við að fletta blaðsíðum.
 • Börn eru hrifin af bókum sem eru með flipum sem lyfta má upp svo í ljós komi falin mynd á bak við.
 • Nefndu og bentu á hluti, dýr eða fólk sem eru á myndum bóka. Með því að vekja athygli á myndum og tengja orð og myndir sem og hluti í kringum þig lærir barnið grundvallarhugsunina að baki tungumálinu.
 • Æfðu barnið í að finna hluti á myndum. „Hvar er kisan?“ Hjálpaðu barninu að læra að benda með einum fingri.
 • Þegar barnið byrjar að nota orð, spyrðu t.d. „Hvað er þetta?“, „Hvað er hann að gera?“, „Er þetta önd?“.
 • Vertu góð fyrirmynd og gættu þess að barnið sjái þig einnig lesa bækur.
 • Með því að lesa bækur örvar þú ekki aðeins ímyndunarafl barnsins heldur einnig virka hlustun og málskilning. Þegar hrynjandi tungumálsins í gegnum lestur verður hluti af daglegu lífi barnsins eru meiri líkur á að lestrarnámið síðar meir verði jafn eðlilegt fyrir það eins og að læra að ganga og tala.

 

Efnið var fengið á heimasíðu Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands