Útikennsla 

 

Ástæður þess að útikennsla hefur fengið vaxandi athygli á undanförnum árum má rekja til þess að það hafa orðið miklar breytingar á þjóðfélaginu sem hafa t.d. kallað fram spurninguna um hvaða reynslu nútíma börn hafa af ósnortinni náttúru. Flestir þeir sem eldri eru muna hvernig það var að leika sér úti í ósnortinni náttúru, þar sem ímyndaraflið og hugmyndaflugið fengu að njóta sín. Lítið var um skiplögð svæði miðað við það sem nú er, bílaumferð minni og foreldrar höfðu meiri tíma til að njóta náttúrunnar með börnunum . Í dag upplifir fjöldi barna náttúruna í gegnum bílrúðu á ferðum með fjölskyldunni, af bókum, sjónvarpi og tölvu en minna í gegnum áþreifanlega reynslu. Því hefur skólakerfið í vaxandi mæli tekið upp á því að gefa börnum kost á að upplifa útiveru, enda dvelja þau stóran hluta úr deginum þar.

Í útikennslu er lagt af stað með ákveðið viðfangsefni og leysa börnin það með aðferðum sem kennarinn hefur fyrirfram ákveðið og skipulagt. Útikennslan snýst um að börnin læri um raunveruleikann í raunveruleikanum, samfélagið í samfélaginu, náttúruna í náttúrunni og nærumhverfið í nærumhverfinu.

Úti í náttúrunni og nánasta umhverfi geta komið upp óvæntar aðstæður og þar verða sífelldar breytingar. Börnin fá tækifæri til að kafa dýpra í viðfangsefnið og leita nýrra svara. Með því að skoða og rannsaka náttúruna reglulega og vinna þar verkefni fá börnin grunnþekkingu á náttúru og umhverfi, sem bætir við reynslu þeirra. Í útikennslu fá börnin tækifæri til að styrkja ýmsa hæfileika sína, þar sem þau nota bæði hug og hönd „learning by doing“. Benda má á að rannsóknir sýna að börn í útinámi hreyfa sig tvisvar sinnum meira á skóladegi en þegar þau eru í hefðbundnu inninámi.

Í útikennslu er börnum gjarnan skipt í minni hópa sem vinna sjálfstætt óháðir hver öðrum. Við þessar aðstæður myndast nægilegt rými fyrir einstaklinginn og í ljós geta komið ýmsir hæfileikar sem ekki sjást í hefðbundinni kennslu. Hér má nefna aukinn skilning á náttúrunni, hinu nánasta umhverfi og menningunni.

Markmiðið með útikennslunni er m.a. að börnin öðlist víðari sjóndeildarhring, þrek þeirra og þol aukist og þau fái aukinn skilning á menningu okkar.