Dvergadeild 2023-2024

 

Starfsfólk Dvergadeildar eru:  Þórunn deildarstjóri, Elísa meistaranemi í leikskólakennarafræðum, Íris Arna leiðbeinandi, Rósa leiðbeinandi, Sigga leiðbeinandi, Embla leiðbeinandi og Svanhildur leiðbeinandi.

Börnin verða 16, 14 fædd 2021 og 2 fædd 2022.  Það eru 11 stelpur og 5 strákar á deildinni.

Aðlögun barns er einn þáttur í uppeldisstarfinu og skiptir miklu máli fyrir líðan barnsins hvernig til tekst. Að byrja í leikskóla er ný reynsla, allt er framandi og ókunnugt og því er mikilvægt að vel sé staðið að málum.  Aðlögun tekur u.þ.b. viku og skipuleggur deildarstjóri aðlögun í samstarfi við starfsfólk deildarinnar.  Markmiðið er að efla öryggiskennd og vellíðan barnsins og foreldra þess í framandi aðstæðum og stuðla að gagnkvæmum kynnum á milli fjölskyldu barnsins og leikskólans. Aðal aðlögunartími Dvergadeildar er í ágúst.

 

Á yngstu deildinni fer mikill tími í hinar daglegu venjur þar sem börn á þessum aldri eru að ná tökum á líkama sínum. Í þessum stundum gefst oft góður tími til að eiga notalega stund og frekara námi t.d. málvörun en mikilvægt er í samskiptum við börn á þessum aldri að „baða“  þau í orðum.  Daglegar venjur setja uppeldisstarfið í ákveðinn ramma sem skapar öryggi og festu í lífi barnanna í leikskólanum.

Í leikskólauppeldi er leikurinn mjög mikilvægur og eru fræðimenn sammála um að hann sé helsta náms og þroskaleið barnsins.  Leikurinn er einnig gleðigjafi og í leikskólastarfi er vellíðan og gleði barnsins grundvallaratriði.  Á Dvergadeild er leikurinn, hinn frjálsi og sjálfsprottni leikur kjarninn í öllu starfi og er honum gefinn góður tími.

Börnin fara í hópastarf einu sinni í viku og er þeim skipt niður í fjóra hópa, fjögur börn í hverjum hóp.  Það er alltaf sami kennari/kennarar sem fylgir/fylgja hverjum hóp yfir veturinn.  Í hópastarfi erum við að gera ýmislegt bæði skipulögð verkefni og frjáls t.d. myndlist, spila, frjáls leikur,  leira, pinna, perla, vináttuverkefni, Numiconverkefni, Lubbaverkefni o.fl.  Hópastarf á yngstu deild miðar að þvi að gera börnin færari í því að vera saman/vinna saman í litlum hóp og eiga notalega stund.

Börnin fara í Könnunarleik einu sinni í viku og skiptast þau í fjóra hópa, fjögur börn í hverjum hóp.  Það er alltaf sami kennarinn/kennararnir sem fylgir/fylgja hverjum hóp yfir veturinn.  Í Könnunarleik erum við að leika með óhefðbundinn efnivið eða verðlaust efni sem við höfum sankað að okkur.  Dæmi um efnivið er: plastflöskur, korktappar, keðjur, lyklar, tréklemmur, tré gardínuhringir, dósir, plastarmbönd, tappar, tréprjónar, pappahólkar o.fl.  Hugmyndin á bakvið þennan leik er að börnin uppgötvi sjálf möguleika efniviðarins og finni sjálf lausnir.  Þau eru að leika með dótið á margvíslegan hátt t.d. fylla, tæma, setja saman, velja og hafna, stafla hlutum finna hvað er líkt og ólíkt, loka og opna o.m.fl.  Hlutverk hins fullorðna er einungis að vera til staðar og sýna vakandi áhuga, börnin eiga sem mest sjálf að uppgötva möguleika og lausnir.  Tiltektin er hluti af leiknum en jafnvel þriðjungur tímans fer í að taka saman, flokka og setja allt á sinn stað.  Það er alltaf einhverjum sem finnst tiltektin skemmtilegust, svo gaman að flokka dótið.  Könnunarleikur er leikur þar sem börnin geta fengið útrás fyrir meðfædda forvitni og notað hæfileikann til að einbeita sér í öruggu umhverfi í hópi.

Börnin fara í skipulagða hreyfistund einu sinni í viku og sér Rósa (reyndur fimleikaþjálfari) um þessar stundir.  Við skiptum hópnum í tvennt, 8 í  hvorum hóp, eldri og yngri.  Þessar stundir fram inni í salnum okkar.  Tíminn skiptist í upphitun, æfingar/þrautahringur og slökun/upprifjun hvað við gerðum í tímanum.  Hreyfingin eykur styrk, úthald og þor barnanna og stuðlar einnig að betra jafnvægi og aukinni færni.

Samverustundir eru tvisvar á dag og erum við aðallega að syngja þar en einnig eru lesnar sögur, rætt saman, dansað, lesnar loðtöflusögur, farið með þulur o.s.frv.  Samverustundir gegna mikilvægu hlutverki fyrir félags- og málþroska barnanna, þau tjá sig og læra að hlusta á aðra. 

Börnin fara út oftast 1-2 á dag.  Það kemur þó fyrir að við förum ekki út og er það þá vegna veðurs.  Útivera býður upp á góða hreyfingu og er mikilvægur þáttur í leikskólauppeldi.  Útivera er börnum holl, styrkir og eflir og eykur matarlyst.  Í útiverunni gefast ótal tækifæri til náms, t.d. um náttúruna og veðrið. 

Við erum með sameiginlega söngstund allra deilda inni í sal á föstudögum.    Deildarnar skiptast þá á að ákveða lögin sem við æfum og eru þá með einhverja uppákomu/skemmtiatriði. 

Grænatún er vináttuleikskóli en Vináttuverkefnið stuðlar að umburðarlyndi og virðingu.  Það skapar umhverfi þar sem börn sýna hvert öðru umhyggju en einnig virkjar það einstaklinga til að gefa þeim hugrekki til að grípa inn í og verja félaga sína.  Vináttuverkefnið er forvarnarverkefni fyrir einelti.  Hvert barn fær lítinn bangsa, Blæ sem er barninu til halds og traust í skólanum.  Þessu verkefni fylgja líka veggspjöld sem lýsa mismunandi aðstæðum og tilfinningum, nuddsögur, sögubók-vísnabók o.fl.  Á Dvergadeildinni byrjum við aðeins á þessu verkefni en svo er farið nánar í það á eldri deildunum.

Við á Dvergadeild höfum líka alltaf lagt mikla áherslu á vináttuna en hún er undirstaða góðra samskipta og þegar ágreiningur verður á milli barnanna reynum við að kenna þeim að leysa hann sín á milli og sættast.  Börnin á yngstu deildinni eru enn sjálfmiðuð og eiga oft erfitt að deila með sér, því er ekki óalgengt að upp komi árekstrar á milli barnanna t.d. þegar deilt er um sama hlutinn.

Við vinnum með Lubbaverkefnið í Grænatúni og byrjum við aðeins á grunninum á því á Dvergadeildinni.  Við t.d. syngjum lögin úr Lubbabókinni og æfum okkur í að læra og gera táknin með hljóðunum, höfum einnig sýnilega stafina og myndir af hlutum sem eiga hvern staf o.fl.

Foreldraviðtöl fara fram í febrúar en þeir sem vilja fá aukaviðtal í nóvember.