Dvergadeild

 

Leikur og gleði:

Leikurinn er hornsteinn leikskólastarfsins, hann er kennsluaðferð leikskólakennarans og námsleið barnsins. Í bernsku er það að leika sér það sama og að læra og afla sér þekkingar. Hinn frjálsi og sjálfsprottni leikur barnsins er talinn “leikur leikjanna”. Í frjálsum leik er barnið að skapa leikinn úr eigin hugarheimi, það tekur ákvarðanir á eigin forsendum og lærir að leita lausna. Í leik er barnið einbeitt og það er upptekið af augnablikinu. Fjölþætt upplifun elur af sér þekkingu, nýjar tilfinningar, nýjar athafnir og leikni.

 

Að öðlast öryggi:

Að byrja í leikskóla er stórt skref bæði fyrir barn og foreldra þess. Þar er að finna ókunnugt fólk og umhverfi. Flestir Foreldrar eru kvíðnir yfir því hvernig barninu farnist við upphaf skólagöngunnar. Nauðsynlegt er að draga úr þeim kvíða m.a. með því áð leggja áherslu á að í leikskólanum eru þarfir barnsins í fyrirrúmi og að því líði sem best. Því er mjög mikilvægt að vanda til aðlögunar barnsins í upphafi leikskólagöngu. Okkar reynsla á Dvergadeild er að á yngstu deildinni stendur aðlögunartímabilið frá hausti fram að áramótum. Frá því að barnið sættist á að kveðja foreldri sitt í að verða öruggur einstaklingur og finna sig á heimavelli á deildinni. Við leggjum áherslu á að hafa rólegt og notalegt andrúmsloft á deildinni þar sem öllum líður vel.

 

Hinn frjálsi leikur:

Í leikskólauppeldi er leikurinn leiðandi hugtak, fræðimenn eru sammála um að leikurinn sé helsta náms og þroskaleið barnsins. Rannsóknir sýna að lítil börn þroskast best í leik. Leikurinn er einnig gleðigjafi og í leikskólastarfi er vellíðan og gleði barnsins grundvallaratriðið. Nám grundvallast á áhugahvöt og áhugahvötin er ekki virk ef barninu líður illa eða er ekki í tilfinningalegu og félagslegu jafnvægi. Á Dvergadeild er leikurinn, hinn frjálsi og sjálfsprottni leikur, kjarninn í öllu starfi og er honum gefinn góður tími. Leikurinn er lífstjáning barnsins og í gegnum hann virkja börn reynslu sína og áhuga.

 

Vináttan:

Börn á yngstu deildinni eru enn sjálfmiðuð og eiga erfitt með að deila með sér. Því koma upp árekstrar á milli barnanna t.d. þegar deilt er um sama hlutinn. Við leggjum mikla áherslu á vináttuna sem er undirstaða góðra samskipta og þegar ágreiningur verður á milli barnanna reynum við að kenna þeim að leysa hann sín á milli og sættast. Við syngjum með börnunum vinalög þar sem við notum líka tákn sem auðveldar þeim að skilja hugtökin að vera góður og vinur.

 

Hinar daglegu venjur:

Á yngstu deildinni fer mikill tími í hinar daglegu venjur þar sem börn á þessum aldri eru að ná tökum á líkama sínum. Þau eru að öðlast færni í að borða sjálf, klæða sig í og úr og að fara á kopp eða salerni. Í þessum stundum er oft gott að nálgast barnið á forsendum þess þar sem gefst kjörið tækifæri á notalegri samverustund og frekara námi t.d. málörvun. Daglegar venjur setja uppeldisstarfið í ákveðinn ramma sem skapar öryggi og festu í lífi barnanna í leikskólanum.

 

Hópastarf:

Börnin fara í hópastarf einu sinni í viku og er þeim skipt niður í fjóra hópa, fjögur til fimm í hverjum hóp.  Það er alltaf sami starfsmaður sem fylgir hverjum hóp yfir veturinn.  Í hópastarfi erum við að gera ýmislegt, t.d. myndlist, frjáls leikur, spila, „ég sjálfur og fjölskyldan mín“ og fleira.  Hópastarf á yngstu deild miðar að því að gera börnin færari í því að vera saman/vinna saman í litlum hóp og eiga notalega stund.

 

Könnunarleikur:

Könnunarleikur er leikur þar sem börnin geta fengið útrás fyrir meðfædda forvitni og notað hæfileikann til að einbeita sér í öruggu umhverfi í hópi allt að sex börnum og einum fullorðnum, hjá okkur eru fjögur til fimm börn í hóp.   Efniviðurinn er ekki hin hefðbundnu leikföng, heldur óhefðbundið leikefni, sem við getum safnað í okkar nánasta umhverfi.  Þessa ólíku hluti má nota á margvíslegan hátt, fylla, tæma, setja saman, velja og hafna, finna hvað er líkt og ólíkt, stafla hlutum og láta þá halda jafnvægi, stundum tekst það, stundum ekki en alltaf er stefnt að settu marki.

Börnin fara í könnunarleik einu sinni í viku og er þeim skipt niður í fjóra hópa, fjögur til fimm börn í hverjum hóp.  Það er alltaf sami starfsmaður sem fylgir hverjum hóp yfir veturinn.

 

Útivera:

Börnin fara í útiveru að minnsta kosti einu sinni á dag. Útivera býður upp á góða hreyfingu og er mikilvægur þáttur í leikskólauppeldi. Útivera er börnum holl, styrkir og eflir, eykur mótstöðuafl og matarlyst. Í útiverunni gefast ótal tækifæri til náms, t.d. um náttúruna og veðrið.

 

Samverustundir:

Í samverustundum eru lesnar sögur, sungið, farið í leiki og rætt saman. Samverustundir gegna mikilvægu hlutverki fyrir félags- og málþroska barnanna, þau tjá sig og læra að hlusta á aðra. Börnin fara í samverustund tvisvar til þrisvar á dag.

 

Samstarf deilda:

Sameiginleg söngstund allra deilda er í sal einu sinni í viku, skiptast deildirnar á að ákveða söngdagskrá.  Einu sinni í mánuði er flæði, þá mega börnin flakka á milli deilda og kynnast öðrum börnum og nýjum efnivið.

 

Hreyfing/leikfimi:

Börnin fara öll í skipulagða tíma í leikfimi einu sinni í viku, þeim er skipt í tvo hópa yngri og eldri. Með hvorum hóp fylgja tveir starfsmenn.   Í leikfimi er  ýmist sett upp þrautabraut eða farið í hreyfileiki, en allir tímar enda á slökun.  Einnig er stundum farið í göngu niður í Fossvogsdal.  Hreyfingin eykur styrk, úthald og þor barnanna, stuðlar einnig að betra jafnvægi og aukinni færni.

 

Aðlögun:

Aðlögun barns er einn þáttur í uppeldisstarfinu og skiptir miklu máli fyrir líðan barnsins hvernig til tekst. Að byrja í leikskóla er ný reynsla, allt er framandi og ókunnugt og því er mikilvægt að vel sé staðið að málum.  Áður en barn byrjar í leikskólanum eru foreldrar boðaðir í viðtal til leikskólastjóra. Aðlögun tekur u.þ.b. viku. Deildarstjórar skipuleggja aðlögun í samstarfi við starfsfólk deildarinnar. Starfsfólk sér yfirleitt um aðlögun þegar barn færist milli deilda. Foreldrum er velkomið að fylgja barni sínu á milli deilda ef þeir óska þess  því er lagður góður grunnur að framtíðinni. Markmiðið er að efla öryggiskennd og vellíðan barnsins og foreldra þess í framandi aðstæðum og stuðla að gagnkvæmum kynnum á milli fjölskyldu barnsins og leikskólans, mikilvægt er að báðir foreldrar taki þátt í aðlöguninni.  Aðal aðlögunartími Dvergadeildar verður í ágúst og september.