Trölladeild 2023-2024

Leikur og gleði

Leikurinn er hornsteinn leikskólastarfsins, hann er kennsluaðferð leikskólakennarans og námsleið barnsins. Í bernsku er það að leika sér það sama og að læra og afla sér þekkingar. Hinn frjálsi og sjálfsprottni leikur barnsins er talinn “leikur leikjanna”. Í frjálsum leik er barnið að skapa leikinn úr eigin hugarheimi, það tekur ákvarðanir á eigin forsendum og lærir að leita lausna. Í leik er barnið einbeitt og það er upptekið af augnablikinu. Fjölþætt upplifun elur af sér þekkingu, nýjar tilfinningar, nýjar athafnir og leikni. Á trölladeild er lög mikil áhersla á að gefa frjálsa leiknum tíma og rými og er hann ávallt álitinn mikilvægur. Frjáls leikur gefur börnum svo mikið, þar efla þau meðal annars félagsþroskann sinn og samskiptahæfni.

 

Skipulagt starf

Þar sem mikil áhersla er lögð á frjálsa leikinn þá breyttum við aðeins því hvernig við högum skipulagða starfinu. Á mánudögum er hópastarf, þriðjudögum er útinám, miðvikudögum eru íþróttir, fimmtudögum er myndlist og á föstudögum er söngstund í salnum. Með þessum hætti er frjálsi leikurinn rauði þráðurinn í gegnum daginn en börnunum er boðið að koma í skipulagt starf jafnt og þétt yfir daginn, þannig fá öll börn tækifæri á því að fara í skipulagða starfið þegar þau eru tilbúin til þess og verður það þannig meira á þeirra forsendum og eftir þeirra áhuga.

 

Málörvun – Lubbi – Blær o.fl

Það er sífellt málörvun í gangi á leikskólanum en við erum einnig að vinna með fjölbreyttan frábæran efnivið okkur til stuðnings. Þar má nefna Lubbi finnur málbein, krakkarnir hjálpa Lubba að læra íslensku málhljóðin með söng og ýmsum öðrum æfingum. Hvert málhljóð á sér ákveðið tákn, í þeim táknum er oft á tíðum stuðst við tákn með tali. Með því að tengja hljóðið við táknræna hreyfinguna er auðvelt að læra það og muna. Börnin læra hljóð stafanna og hjálpar það þeim síðar í lestrarnámi sínu. Börnin fara í Lubbastund 2x í viku fyrir matartímann.

Vináttuverkefnið Blær er forvarnaverkefni gegn einelti, sem barnaheill heldur utan um en verkefnið kemur frá Danmörku. Þar er áhersla lögð á fjögur gildi: virðingu, umhyggju, umburðarlyndi og hugrekki. Börnin eiga öll sinn eigin Blæ hérna í leikskólanum sem þau fá svo með sér heim að lokinni leikskólagöngu. Í vetur viljum við tengja vináttuverkefnið á milli heimila og skóla. Við munum því á föstudögum vera með vináttustund með börnunum þar sem Blær bangsi deildarinnar mun síðan fara heim með barni yfir helgi. Með honum mun fylgja bók sem foreldrar og barnið fylla út saman, það er hægt að segja frá því hvað var gert, teiknaðar myndir eða límdar ljósmyndir í.

Samræðulestur er í gruninn samræður um söguefni frekar en lestur frá orði til orðs. Þegar samræðulestri er beitt er áherslan á að efla málþroska og orðaforða barna. Samræðulestur gengur út á að gera ung börn að virkum þátttakendum í lestrinum,  hlutverk lesandans er því að hlusta, spyrja og hvetja börnin til þátttöku og frásagnar.

 

Útinám – Hópastarf – Myndlist

Í útináminu fá börn tækifæri til þess að læra á fjölbreyttan og skemmtileg hátt. Börnin fá að kynnast nærumhverfi sínu, fá góða útiveru, efla málörvun o.fl. Í útináminu leggjum við upp með að elta áhuga barnanna og nýta þau námstækifæri sem bjóðast hverju sinni. Einnig munum við leggja áherslu á umhverfisvitund, að læra að koma fram við náttúruna af virðingu.

Í myndlist er börnunum kynntar ýmsar aðferðir í myndlistinni. Einnig hafa börnin alltaf aðgang að fjölbreyttum efnivið inni á deild.

Hópastarf: í haust erum við að vinna með Sögugrunninn og KVAN.

Sögugrunnurinn inniheldur þrenns konar efnivið: myndaspjöld, prentaðar orðmyndir og stafrófið. Myndirnar eru líflegar vatnslitamyndir sem vinna auðveldlega hug og hjörtu ungra sögumanna og kveikja hjá þeim löngun til að segja sögu. Markmið námstækisins Sögugrunns er að efla málþroska og frásagnarhæfni barna og vekja áhuga þeirra á ritmáli og tengslum talmáls og ritmáls.

KVAN - Félagsfærni er lærð hegðun sem hægt er að þjálfa. Með því að að einblína á eina færni í einu í hverri kennslustund ýtum við undir betri skilning á þeirri færni. Það er mikilvægt að börnin fái tækifæri til að prófa sig áfram og æfa sig í færninni í litlum hópum þar sem þeim er leiðbeint. Sú færni sem verið er að æfa að hverju sinni er síðan notuð mikið þá vikuna til þess að ýta enn frekar undir skilninginn á henni.

Sem dæmi um færni sem verið er að efla er:

  • Að öllum líði vel
  • Að vera góður vinur
  • Sanngirni
  • Hjálpsemi

 

Íþróttir

Börnin fara einu sinni í viku í íþróttir í salnum. Þar er lögð áhersla á að þjálfa börnin í grófhreyfingum o.fl. Við skiptum önninni í tvennt – fyrri parturinn eru íþróttir, þrautabrautir og leikur en seinni parturinn er jóga.

Samverustundir

Í samveru stundum förum við í Lubba stundir, Blæ stundir ásamt því að syngja og lesa.

 

 

Útivera

Börnin fara út á hverjum degi og er lögð mikil áhersla á það inni á trölladeild að þjálfa börnin í að klæða sig sjálf, þau fá góðan tíma til að æfa sig og prófa sig áfram. Útisvæðið er stórt og með frábæra möguleika til að æfa allskyns fín og grófhreyfingar. +

 

Afmæli

Afmæli barna er merkisviðburður í lífi þeirra og við höldum uppá það. Börnin útbúa sína eigin kórónu ásamt því að fá að velja sér afmælisdisk, glas og diskamottu.

 

Sumarstarf

Á sumrin breytist starfið á leikskólanum og við tekur útival tvisvar sinnum í viku. Þá setjum við upp nokkrar stöðvar á lóðinni eins og íþróttastöð, smíðastöð, sullstöð o.fl.

Á sumrin setjum niður grænmeti og sjáum svo um að vökva og huga að görðunum. Síðan tökum við upp grænmetið í lok ágúst og það borðað með bestu lyst.

 

Að öðlast öryggi

Að byrja í leikskóla og að fara á milli deilda getur verið stórt skref fyrir barn og foreldra þess. Sumir foreldrar eru kvíðnir yfir því hvernig barninu farnist við þessar breytingar. Nauðsynlegt er að draga úr þeim kvíða m.a. með því að leggja áherslu á að í leikskólanum eru þarfir barnsins í fyrirrúmi og að því líði sem best.Við leggjum áherslu á að hafa rólegt og notalegt andrúmsloft á deildinni þar sem öllum líður vel. Einnig viljum við hvetja foreldra til að vera í samskipum við okkur og ekki hika við að leitast eftir því að ræða við okkur um hvaða málefni sem er.

 

Foreldraviðtöl

Foreldraviðtöl eru í febrúar/mars. En foreldrar mega alltaf óska eftir samtali við deildarstjóra eða leikskólakennara á deildinni.