Þema leikskólans
Leikur og gleði er yfirskrift leikskólans og er haft að leiðarljósi í öllu okkar starfi.
Sérstakar áherslur:
Að hafa virkni og áhugahvöt barnsins í fyrirrúmi og að frumkvæði og sjálfstæði þess sé örvað í leik og starfi.
Hópastarf:
Í vetur höldum við áfram með vináttu, stærðfræði og íslensku þar sem unnið verður í lotum ca. 4-5 vikur í senn fyrir og eftir áramót. Í september verður unnið með vináttuna og styðjumst við Vináttuverkefni sem er á vegum Barnaheilla en það er forvarnarverkefni gegn einelti í leikskólum. Unnið er með fjögur grunngildi: Umburðarlyndi, virðingu, umhyggju og hugrekki.
Í október er stærðfræðilota þar sem lögð er áhersla á að börnin læri ýmis stöðuhugtök og átti sig á rými, fjarlægðum og áttum og börnin hvött til að færa rök fyrir máli sínu. Námið fer fram í leik og er fléttað inn í daglegt líf og umhverfi. Áhersla er á lausnaleit, verkefni sem reyna á rökhugsun og að hvetja börnin til að tjá sig, hugsa lausnir og geta sagt frá þeim.
Í nóvember verður íslenskulota þar sem aðalmarkmiðið er að auka orðaforða, efla málskilning og örva skýran framburð, undirbúa börnin fyrir lestrarnám og vinna forvarnarstarf gegn lestrarörðugleikum. Áhersla verður lögð á að barnið fái að tjá hugsanir sínar og tilfinningar og færa rök fyrir máli sínu. Hljóm-2 verður lagt fyrir eru börnin í september en það er próf sem kannar mál- og hljóðkerfisvitund.
Hreyfing:
Öll börn fara einu sinni í viku í skipulagða tíma, sem ýmist fara fram í salnum eða í vettvangsferð úti í náttúrunni sem að tengist lotuvinnunni. Markmið hreyfingar er að örva hreyfiþörf barna og að þau læri að þekkja og skynja líkama sinn og getu.
Leikfimistímar í sal á þriðjudögum
Myndlist:
Börnin fara einu sinni í viku í myndlist. Þar er lögð áhersla á að börnin noti fjölbreyttan efnivið og áhöld og að þjálfa samhæfingu augna og handa. Viðfangsefni í myndlist tengjast lotuvinnu. Börnin hafa aðgang að verðlausu efni , litum, pappír og skærum inn á deild.
Útivera:
Við erum dugleg að fara út, oftast tvisvar á dag, ýmist í frjálsan leik í garðinum eða í gönguferðir sem að tengjst lotuvinnu.